Al-Hilal vill fá Salah fyrir næsta sumar - Man Utd ætlar að kaupa Branthwaite - PSG undirbýr tilboð í Duran
banner
   þri 25. apríl 2017 11:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Er þetta ekki komið nóg?
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Eva Hafdís Ásgrímsdóttir.
Eva Hafdís Ásgrímsdóttir.
Mynd: Úr einkasafni
Eva og Arna Sif systir hennar sem leikur með Val.
Eva og Arna Sif systir hennar sem leikur með Val.
Mynd: Úr einkasafni
Dóra María sleit krossband í landsleik í síðasta mánuði.
Dóra María sleit krossband í landsleik í síðasta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Myndin sýnir þau lið sem áttu flesta leikmenn sem höfðu slitið þegar ritgerðin var skrifuð.
Myndin sýnir þau lið sem áttu flesta leikmenn sem höfðu slitið þegar ritgerðin var skrifuð.
Mynd: Úr einkasafni
Sandra María Jessen missir af byrjun tímabils eftir að hafa slitið aftara krossband í mars.
Sandra María Jessen missir af byrjun tímabils eftir að hafa slitið aftara krossband í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þrír leikmenn Pepsídeildarliðs Vals, sem og einn leikmaður Þórs/KA, búnar að slíta krossband núna á rúmum þremur mánuðum. Er það ekki of mikið?

Eva Hafdís heiti ég, 26 ára íþróttafræðingur og fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, Aftureldingar og núna síðast Fjarðabyggðar. Frá árinu 2007 hef ég haft brennandi áhuga á krossböndum og krossbandaslitum kvenna og er ástæðan sú að sjálf hef ég tvisvar sinnum orðið fyrir því að lenda í þessum meiðslum, árið 2005 á hægri fæti, þá 15 ára gömul og svo aftur 2007 á vinstri fæti, þá 17 ára. Ég vissi lítið sem ekkert um meiðslin á þeim tíma eða hversu alvarleg þau eru og fór að hafa áhuga á þeim og algengi þeirra á Íslandi eftir að ég sleit í seinna skiptið.

Markmiðið með þessum skrifum mínum er að vekja athygli á mikilvægi fyrirbyggjandi þjálfunnar til þess að reyna að koma í veg fyrir krossbandaslit og vonandi að í framhaldi verði vitundavaknig á því að þörf sé á slíku. Krossbandaslit geta leitt til langvarandi hnémeina og eru meiðsli sem ætti að líta alvarlegum augum.

Algengi krossbandaslita á Íslandi hefur aukist gífurlega á síðustu árum og tel ég meðal annars tilkomu ervigrasknattspyrnuhúsanna spila þar inn í. Rannsóknir sína fram á að um 70% alvarlegra hnémeiðsla í íþróttum eigi sér stað án líkamlegrar snertingar frá andstæðingi og eru krossbandaslit eitt algengasta tilfelli hnémeiðsla í íþróttum sem krefjast snöggra stefnubreytinga, líkt og knattspyrnu, handbolta og körfubolta. Undirlag, skóbúnaður, utan að komandi aðstæður sem og líkamsbygging hafa einnig mikil áhrif.

Talið er að ungar konur séu 16% líklegri til þess að verða fyrir þessum meiðslum en karlar og er það að stærstum hluta vegna líkamsbyggingar kvenna. Konur eru með breiðari mjaðmir og hnéð þar af leiðandi innar miðað við mjaðmirnar og því undir meira álagi. Tíðarhringur kvenna er svo annar þáttur en niðurstöður rannsókna eru oft mjög misvísandi um það hversu mikil áhrif hann hefur en sína þó flestar að konur eru mun viðkvæmari fyrir meiðslunum á fyrstu dögum tíðarhringsins.

Árið 2013-2014 vann ég að því að skrifa BS-ritgerð í Íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík um krossbandaslit knattspyrnukvenna á Íslandi. Ég hafði samband við fyrirliða og þjálfara liða í bæði Pepsí- og 1. deild kvenna þar sem ég óskaði eftir þátttöku þeirra leikmanna sem höfðu slitið krossband/bönd og sendi í kjölfarið út spurningalista. Alls voru 55 leikmenn á aldrinum 16-34 sem tóku þátt og svöruðu spurningunum. Þar kom í ljós að helstu orsök krossbandaslita knattspyrnuvenna hér á Íslandi eru snúningur á föstum fæti og getur það meðal annars orsakast vegna skóbúnaðar. Á gervigrasi hafa langir blaðtakkar t.a.m meiri tilhneigingu til að festast í grasinu en hringtakkar en um 54% þátttakenda slitu einmitt á gervigrasi - sem og ég sjálf í bæði skiptin.

Það sem stakk mig hvað mest við gerð rannsóknarinnar á sínum tíma var það hversu mis mikil áhersla er lögð á sérstakar fyrirbyggjandi æfingar hjá liðum á Íslandi. Í flestum rannsóknum og heimildum sem ég fann var talað um að konur væru viðkvæmastar fyrir meiðslunum í kringum kynþroskaskeiðið og hversu mikilvægt væri að byrja snemma með fyrirbyggjandi æfingar líkt og styrktar- og stöðugleikaæfingar sem og lendingartækniæfingar. Rúmlega helmingur þeirra sem svöruðu spurningalistanum sögðu að lítil eða frekar lítil áhersla væri lögð á fyrirbyggandi styrktarþjálfun hjá sínu félagi. Samkvæmt rannsóknum er einn mikilvægasti þátturinn í fyrirbyggingu krossbandaslita það að kenna rétta lendingartækni og kom það fram í svörunum að um helmingur liðanna lagði litla eða enga áherslu á slíkar æfingar.

Á veturna keppast liðin um hverja einustu mínútu í knattspyrnuhúsum landsins og eru mörg félög sem þurfa að deila húsum og fer því mestur tíminn á grasinu í sérhæfða þjálfun sem snýr að fótboltanum. Það væri áhugavert að skoða forgangsröðun þjálfara, þ.e.a.s hversu margir eru að nýta þann tíma sem þeir hafa fyrir hefðbundnar knattspyrnuæfingar einungis í knattspyrnu eða hvort þeir gefi sér tíma fyrir fyrirbyggjandi æfingar í upphafi eða lok æfingar. Sjálf man ég ekki eftir neinu slíku á mínum ferli. Það voru einungis þær æfingar sem ég fékk hjá sjúkraþjálfara í endurhæfingarferlinu sem ég sinnti þá sjálf eftir æfingar. Vissulega hefur einhver breyting orðið þar á síðan 2007 en betur má ef duga skal.

Myndin hér til hliðar sýnir þau lið sem áttu flesta leikmenn sem höfðu slitið þegar ritgerðin var skrifuð.

Síðan þá veit ég um rúmlega tíu stelpur, úr nær öllum þessara liða sem hafa slitið (sumar þeirra í annað skipti) og eru þær mögulega fleiri. Allt eru þetta lið sem leika í Pepsídeildinni í ár.

Það sem þessir fjórir leikmenn sem slitið hafa núna á síðustu mánuðum eiga sameiginlegt er að þær byrjuðu mjög ungar að spila í meistaraflokki og mögulega ekki búnar að taka út líkamlegan þroska. Ef til vill voru þær einnig að spila með fleiri flokkum á sama tíma, sumar bæði 2. og 3. og því álagið mikið þar sem stökkið á milli er frekar stórt. En afhverju núna? Hvað er það sem veldur? Eru það stöðugar breytingar á undirlagi? Það að fara af grasi yfir á gervigrasið, sem er alls ekki eins á öllum völlum? Er það álagið? Er það eitthvað meira núna en oft áður? Vissulega er álagið mikið, tala nú ekki um á þeim leikmönnum sem eru/ætla sér að fara á EM í sumar en ætli sé rétt að skella skuldinni alfarið á aukið álag?

Því miður hef ég ekki svörin við þessum spurningum og er erfitt að komast til botns í því hvað það er sem nákvæmlega veldur þessari gríðarlegu aukningu en á meðan það ríkja svona margir óvissu þættir í þessari jöfnu þá tel ég enn mikilvægara að leggja áherslu á fyrirbyggjandi æfingar sem sýnt hefur verið fram á að virki. Með því getur maður lagst á koddann á kvöldin, vitandi það að maður er búinn að gera sinn þátt í að reyna að sporna við þessu.
Einnig er erfitt að reyna að leysa gátuna um það hvort grasið sé valdurinn og er tíðarhringurinn vissulega stór faktor en þegar öllu er á botninn hvolft er það víst að þjálfað hné stendur alltaf sterkara að vígi en óþjálfað.

-Eva Hafdís Ásgrímsdóttir

Fyrir áhugsasama er hægt að sjá ritgerðina í heild sinni á skemman.is undir leitarorðunum ”Krossbandaslit knattspyrnukvenna á Íslandi”.
Athugasemdir
banner
banner
banner