Chelsea tilbúið að losa Mudryk - Zubimendi sér eftir því að hafa hafnað Liverpool
banner
   fös 25. ágúst 2017 10:30
Magnús Már Einarsson
Tindastóll í svikamyllu - Fengu rangan leikmann
Tindastólsmenn fagna marki fyrr í sumar.
Tindastólsmenn fagna marki fyrr í sumar.
Mynd: Hanna Sím
Stefán Arnar Ómarsson (til vinstri) er þjálfari Tindastóls.
Stefán Arnar Ómarsson (til vinstri) er þjálfari Tindastóls.
Mynd: Valgeir Kárason
Úr leik hjá Tindastóli.
Úr leik hjá Tindastóli.
Mynd: Hanna Sím
Úr leik hjá Tindastóli.
Úr leik hjá Tindastóli.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tindastóll sendi á dögunum Jonathan Ayotunde Olaleye heim eftir að hann hafði alls ekki staðið undir væntingum hjá félaginu. Leikmaðurinn kom til Tindastóls rétt áður en félagaskiptaglugginn lokaði um mánaðarmótin.

Þegar málið var skoðað nánar þá hafði Jonathan svikið Tindastól. Hann hafði sent myndbönd af öðrum leikmanni sem sýndi góða takta og virtist geta styrkt liðið. Jonathan var ekki leikmaðurinn á myndböndunum en hann er sjálfur langt frá því að vera nægilega öflugur leikmaður til að styrkja lið Tindastóls í 2. deildinni.

„Forsagan er sú að þegar Tindastóll segir upp þjálfurunum sem voru með liðið fyrri hluta móts þá fara tveir aðrir erlendir leikmenn frá liðinu. Þannig að þrír sterkir byrjunarliðsmenn fara frá liðinu. Þetta gerist allt rétt fyrir lokun gluggans í júlí. Þá þurfti að bregðast hratt við. Fengum við inn þrjá leikmenn í stað þeirra. Tvo sem hafa reynst okkur mjög vel og styrkt liðið en sá þriðji varð vægast sagt ekki sá leikmaður sem við bjuggumst við," sagði Stefán Arnar Ómarsson, þjálfari Tindastóls, við Fótbolta.net í dag.

„Við vorum með tölvupósta og myndbönd af fullt af leikmönnum og einn heillaði okkur meira og höfðum við samband við umboðsmann hans sem var búinn að senda okkur "profile" af fleiri leikmönnum og trúðum því að hann væri 100%."

„Við heyrðum í leikmanninum í síma ásamt bréfaskrifum og lýsti hann sér sem þeim leikmanni sem stemmdi við videoið sem við vorum búnir að sjá. Þessi leikmaður var með Írskt vegabréf en nafnið var Afrískt."

„Hann kom síðan til landsins frá London tveimur dögum seinna og síðan þegar fyrsta æfing var búin sáu allir sem voru á þeirri æfingu að þetta var ekki leikmaður sem myndi styrkja liðið, veikja það ef eitthvað væri."


Leikmaðurinn var ekki sá sem hann sagðist vera
Jonathan hefur æft með Tindastóli undanfarnar vikur en á Sauðárkróki hafa menn ekki séð jafn slakan erlendan leikmann áður.

„Maður hefur heyrt i gegnum árin allskonar sögur af slökum leikmönnum sem hafa komið til landsins og t.d í körfunni að leikmenn hafa „minnkað" í flugvélinni til landsins. Við vorum að vona í fyrstu að formleysi væri ástæðan fyrir þessu getuleysi hans, því hann átti að búa yfir góðum hraða. Það var síðan fljótlega fullreynt að þessi maður yrði ekkert betri."

„Við fengum síðan vísbendingu frá góðum manni að mögulega væri þessi leikmaður ekki sá sem hann segðist vera á myndbandinu. Fengum við sent myndband af öðrum leikmanni og í því voru sömu klippurnar og við höfðum séð hja þeim sem við fengum til okkar. Við höfðum samband við þann leikmann og fengum við sönnur á það að það væri „rétti" leikmaðurinn."

„Þá kom líka í ljós að leikmaðurinn sem við höfðum fengið hafði tekið út ákveðna grafík úr upprunalega myndbandinu sem villti enn frekar fyrir okkur. Um leið og þetta svindl og persónuþjófnaður var uppgötvaður var maðurinn sendur heim með næstu vél."


Umboðsmaðurinn sver af sér allar sakir
Augljóst er að Tindastólsmenn voru sviknir en umboðsmaður Jonathan vill þó ekki kannast við það.

„Umboðsmaðurinn sver þetta af sér, en þetta kennir okkur auðvitað það að aldrei sé of varlega farið í þessum málum. Við vorum auðvitað í miklu tímahraki þar sem aðeins 2-3 dagar voru í lokun gluggans og þurfti að vinna hratt. En við hefðum átt að fá meðmæli frá þriðja og jafnvel fjórða aðila eins og maður gerir oftast í þessu en var ekki gert núna og það reyndist okkur dýrkeypt," sagði Stefán.

Tindastóll vann Hött 6-1 í 2. deildinni um síðustu helgi og lyfti sér um leið upp í 7. sæti deildarinnar eftir að hafa verið í harðri fallbaráttu undanfarnar vikur.
Athugasemdir
banner
banner
banner