Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 26. júlí 2021 15:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freysi byrjar vel: Nýt góðs af því sem Óli Kristjáns hefur gert
Ákveðin ábyrgð að vera góður sendiherra fyrir íslenska þjálfara
Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby.
Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby.
Mynd: Lyngby
Freyr var aðstoðarþjálfari Erik Hamren með íslenska landsliðið.
Freyr var aðstoðarþjálfari Erik Hamren með íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég myndi segja að þetta sé félag sem hefur rosalega mikla möguleika til að ná langt'
'Ég myndi segja að þetta sé félag sem hefur rosalega mikla möguleika til að ná langt'
Mynd: Lyngby
Lyngby féll úr dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Lyngby féll úr dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Félag með öfluga stuðningsmenn.
Félag með öfluga stuðningsmenn.
Mynd: Getty Images
'Markmið félagsins er að vera topp 12 félag í Danmörku.'
'Markmið félagsins er að vera topp 12 félag í Danmörku.'
Mynd: Lyngby
Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það kom ekkert sem fór í einhverjar viðræður, þannig. Ég tók samtöl við tvö önnur félög, en ekkert sem var komið langt'
'Það kom ekkert sem fór í einhverjar viðræður, þannig. Ég tók samtöl við tvö önnur félög, en ekkert sem var komið langt'
Mynd: Lyngby
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
'Núna ætla ég að gera allt sem ég get gert til að gera vel, svo ég opni dyr fyrir fleiri í framtíðinni'
'Núna ætla ég að gera allt sem ég get gert til að gera vel, svo ég opni dyr fyrir fleiri í framtíðinni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, fyrrum aðstoðarþjálfari landsliðsins, vonast til að vera góður sendiherra fyrir íslenska fótboltaþjálfara erlendis.

Freyr stýrði í gær danska B-deildarliðinu Lyngby í fyrsta sinn í deildarleik. Niðurstaðan var dramatískur sigur gegn Nykobing. Þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Rasmus Thellufsen sigurmark Lyngby. Dramatískur sigur í eldskírninni.

„Þetta var svona eins og fyrstu leikir eru oft; mikil stöðubarátta og seinni boltar. Þetta er erfiður útivöllur. Við vorum að spila við lið sem rúllaði upp 2. deild í fyrra, hörkulið með mikið sjálfstraust. Það var erfitt að spila við þá. Þeir eru ótrúlega vel skipulagðir og við vissum það. Við þurftum að vera þolinmóðir," segir Freyr um fyrsta leikinn í samtali við Fótbolta.net.

„Við lögðum upp með að vera tilbúnir að vinna skítavinnuna, staðsetja okkur rétt til að vinna fyrsta og annan boltann, og koma boltanum þannig í spil. Það gekk vel. Þeir eiga tvö færi í leiknum. Annað er langskot af 20 metrum sem þeir skora úr. Við vorum hrikalega þéttir og öflugir. Við hefðum getað gengið frá leiknum fyrr, en svona er þetta. Ég er hrikalega ánægður með frammistöðuna hjá liðinu."

„Við erum búnir að selja marga og vorum líka með lánsmenn í fyrra; það eru níu menn farnir frá okkur frá því á síðasta tímabili og við erum búnir að fá inn fimm. Það eru búnar að vera miklar breytingar. Ég er ánægður með þennan leik."

Búið að vera mikið að gera
Freyr var ráðinn til Lyngby í síðasta mánuði og er hann núna í fyrsta sinn aðalþjálfari á erlendum vettvangi. Hann segir að það hafi verið nóg að gera fyrstu vikurnar í Danmörku.

„Þetta er búið að vera eins og ég bjóst við svo sem; það er búið að vera mikið að gera í því að kynnast nýju félagi, nýjum samstarfsmönnum og fyrir mig að setja mig inn í hlutina varðandi félagið og deildina. Það eru margir klukkutímar og mikil vinna, en mjög skemmtilegt. Ég er mjög heppinn með félag því að hér er frábært starfsfólk, aðstoðarmennirnir eru mjög færir og leikmennirnir eru ótrúlega öflugir á æfingasvæðinu - það er auðvelt að þjálfa þá."

Lyngby féll úr dönsku úrvalsdeildinni í fyrra. Freysi segir Lyngby stefna á að vera á meðal tólf sterkustu félaga Danmerkur.

„Ég myndi segja að þetta sé félag sem hefur rosalega mikla möguleika til að ná langt. Þeir eru á þeim stað í dag að þeir eru að bíða eftir því að byggja nýjan völl og taka næsta skref í sinni þróun. Þetta er félag sem leggur mikinn metnað upp úr unglingastarfinu og hefur skapað marga frábæra leikmenn og þjálfara í gegnum tíðina. Það fer mikil orka í unglingastarfið og við fáum leikmenn upp á hverju einasta ári. Við seljum leikmenn á hverju einasta ári," segir Freyr og heldur áfram:

„Við viljum vera topp 12 félag í Danmörku en á sama tíma erum við líka félag sem gefur ungum leikmönnum tækifæri og selur leikmenn. Núna erum við búnir að selja fimm leikmenn síðan ég kom."

„Það er hér mikil hefð og miklir aðdáendur í kringum félagið. Það er mikill metnaður, en þó ekki miklir peningar. Félagið fór næstum því á hausinn fyrir fjórum árum en það er búið að rétta skútuna af. Það er vel haldið utan um fjárhagslegu hliðina í dag. Það er líka rosalega mikið af góðu fólki hérna; stjórn, þjálfarar og starfsfólk. Þetta er ofboðslega mikið Lyngby fólk sem er stolt að vera hluti af þessu félagi."

Lengi viljað þjálfa í Danmörku
Freyr segist lengi hafa stefnt að því að þjálfa í Danmörku en tók UEFA Pro þjálfaragráðu sína þar í landi.

„Aðdragandinn er búinn að vera langur þannig séð. Ég tók UEFA Pro þjálfaramenntunina mína í Danmörku. Við það myndast ákveðið tengslanet. Ég þekki fólk í Danmörku og það var vitað að ég var til í að fá vinnu í Danmörku eftir að við ákváðum að vera ekki áfram í Katar. Hugurinn leitaði til Danmerkur."

„Ég er með umboðsskrifstofu sem er vel tengd inn á danska markaðinn. Þegar þetta starf losnaði skyndilega, þá var mér boðið í viðtal. Ég veit að það voru mjög margir sem sóttu um. Þetta small vel saman hjá okkur; mér leist mjög vel á félagið og þeim leist vel á mig. Þannig gerðist þetta," segir Freyr.

Var bara ég sjálfur
Það var talað um það í Danmörku að Freyr hefði heillað stjórnarmenn Lyngby með hugmyndum sínum og metnaði. Hvernig fór hann að því?

„Ég veit það ekki alveg, ég var bara ég sjálfur," segir Freyr. „Þrátt fyrir að ég sé búinn að vera aðstoðarþjálfari hjá landsliðinu og hjá Heimi út í Katar, þá var ég löngu búinn að mynda mér skoðun á því hvernig ég vil hafa hlutina."

„Ég er búinn að vera mjög heppinn að vera með mörg mismunandi verkefni í gegnum tíðina. Ég var með kvennalið Vals og þá gat ég unnið mikið í sóknarhlutanum, og byrjað að byggja ákveðið plan í kringum hugmyndir mínar þar. Þar gat ég prófað mig áfram og var með frábæra íþróttamenn til að hjálpa mér með það. Svo tók ég þetta starf hjá Leikni þar sem ég fékk að kynnast uppbyggingu í kringum félag, breytingu á kúltúr og annað. Með þessari reynslu sem ég hef fengið, þá hef ég byggt upp ákveðið prógram sem ég er búinn að smíða."

„Ég kynnti það fyrir þeim, mínar hugmyndir - bæði varðandi leikstíl og líka varðandi hvernig ég er sem leiðtogi. Svo var ég bara ég sjálfur og sagði þeim hvernig ég vil vinna hlutina."

Kan du snakke dansk?
Í viðtölum út í Danmörku, þar hefur Freyr talað dönsku. Er hann með dönskuna alveg upp á tíu?

„Ég myndi ekki segja að danskan sé upp á tíu," segir Freyr léttur. „Ég ákvað fyrir svolitlu síðan að ég ætlaði mér að þjálfa í Danmörku. Mér finnst danskur fótbolti hrikalega skemmtilegur, strúktúrinn er mjög aðlaðandi og landið frábært. Ég er búinn að fylgjast lengi með dönskum fótbolta. Ég var búinn að undirbúa mig í langan tíma fyrir það að koma hingað á einhverjum tímapunkti. Svo er það bara að skella sér í djúpu laugina og láta vaða."

„Þetta kemur hægt og rólega. Ég er ánægður með að fólk virðir það við mig að ég vilji gera þetta, tala dönsku sem mest og aðlagast eins hratt og kostur er á."



Langaði ekki heim á þeim tímapunkti
Eftir að Freyr steig til hliðar ásamt Heimi Hallgrímssyni hjá Al Arabi í Katar fyrr á þessu ári, þá var hann orðaður við heimkomu. Hann var orðaður við bæði FH og Stjörnuna í Pepsi Max-deildinni. Hann langaði ekki að koma heim á þessum tímapunkti.

„Það kom ekkert sem fór í einhverjar viðræður, þannig. Ég tók samtöl við tvö önnur félög, en ekkert sem var komið langt," segir Freyr spurður að því hvort eitthvað hafi komið upp á milli þess þegar hann hætti hjá Al Arabi og tók svo við Lyngby.

„Akkúrat á þessum tímapunkti, þá langaði mig ekki að koma heim. Ég vildi halda áfram að starfa erlendis og byggja upp feril þar. Það er margt mjög skemmtilegt við íslenskan fótbolta og ég var ekki búinn að útiloka það á neinum tímapunkti. Mín einbeiting var að sjá hvað kæmi upp erlendis. Hugur minn var ekki að fara heim á þeim tímapunkti."

Vill bæta við - Sautján ára byrjaði í gær
Freyr stefnir á það að bæta við leikmannahóp sinn á næstunni, einum til tveimur leikmönnum.

„Við munum bæta við leikmannahópinn. Við þurfum að bæta við einum til tveimur leikmönnum. Við ákváðum að taka tvo upp úr unglingastarfinu og annar þeirra byrjaði í gær, 17 ára gamall. Hann átti mjög flottan leik. Við erum að leita og skoða hvað við getum gert á markaðnum. Ég býst við að það komi einn til tveir leikmenn."

Lyngby hefur selt mikið og þar á meðal hinn 21 árs gamla Magus Warming til Torino á Ítalíu. Samkvæmt BT í Danmörku þá borgar Torino 9 milljónir danskra króna fyrir Warming, en það eru rúmlega 177 milljónir íslenskra króna.

„Því miður ekki," segir Freyr spurður að því hvort hann fái þennan pening til að versla leikmenn. „Við erum búnir að selja fyrir 20-25 milljónir danskar og það er bara lítið brot af því sem við getum notað í leikmannakaup. Félagið - eins og ég segi - var í miklum fjárhagsörðugleikum fyrir nokkrum árum og þetta fer í skuldir og áframhaldandi rekstur. Núna er kominn fjárhagslegur stöðugleiki. Ef við seljum eitthvað meira, þá er kannski hægt að nota eitthvað af þeim pening í frekari kaup. Það litla sem við getum notað í kaup, við verðum að vera klókir með það."

Er ekki markmiðið að fara beinustu leið upp á þessu tímabili?

„Markmið félagsins er að vera topp 12 félag í Danmörku. Við þurfum að halda stöðugleika fjárhagslega og búa til leikmenn. Eins og staðan er núna er of snemmt að segja til um hvort við séum búnir að búa til nægilega gott lið til að fara upp. Við munum reyna að þroska liðið eins hratt og kostur er. Svo sjáum við hvar við stöndum þegar kemur vetrarfrí í nóvember. Það er félagaskiptagluggi í janúar og þá getum við metið það, hvort það sé raunhæft að fara upp eða ekki."

Notið góðs af því sem Óli Kristjáns hefur gert
Freyr segir það mikilvægt að íslenskir þjálfarar fái tækifæri erlendis. Það sé erfitt að komast að hjá félögum erlendis en hann vonast til að geta hjálpað öðrum íslenskum þjálfurum, með því að gera vel hjá Lyngby.

„Það er ákveðin ábyrgð - finnst mér - að standa mig vel og vera góður sendiherra fyrir íslenska þjálfara. Það skiptir máli að við stöndum okkur og skiljum eftir gott orðspor þegar við förum eitthvað. Ég vonast til að ég geti gert það því það er ofboðslega erfitt að komast að erlendis."

„Ég nýt góðs af því sem Ólafur Kristjánsson hefur gert í Danmörku. Það fer gríðarlega gott orð af honum hér. Hann hefur unnið gott starf og oft ekki verið dæmdur réttilega heima miðað við aðstæðurnar sem hann hefur þurft að díla við í félögunum sem hann hefur verið hjá í Danmörku. Það fer rosalega gott orð af honum og ég nýt góðs af því," segir Freyr en hvað hefur verið lykilatriðið fyrir hann til að ná svona langt?

„Lykilatriðið er fyrst og fremst að vita fyrir hvað þú stendur, vita fyrir hvað þú vilt standa sem leiðtogi og sem þjálfari. Þú þarft að geta gert hvoru tveggja. Þú þarft líka að búa til tengslanet. Fyrir mig að taka UEFA Pro menntunina mína annars staðar en á Íslandi, það var mikilvægt fyrir mig. Það reyndist vel og ég bjó til tengslanet þannig. Ég hef líka verið lánsamur með það að vinna hjá KSÍ, vera út um allan heim og kynnst fullt af fólki... við þurfum að vera dugleg við að hafa góð tengsl, alla vega til Skandinavíu."

„Núna ætla ég að gera allt sem ég get gert til að gera vel, svo ég opni dyr fyrir fleiri í framtíðinni. Ég vona það svo innilega," segir Freyr Alexandersson sem byrjar á sigri með Lyngby í Danmörku.
Athugasemdir
banner
banner
banner