Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fös 27. október 2023 15:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sigurvin Ólafs: Lært af goðsögnum en nú er tími að standa á eigin fótum
Lengjudeildin
Sigurvin Ólafsson.
Sigurvin Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin mættur í Laugardalinn.
Sigurvin mættur í Laugardalinn.
Mynd: Þróttur
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Lærði mikið af Heimi Guðjóns.
Lærði mikið af Heimi Guðjóns.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin skrifaði undir þriggja ára samning við Þrótt.
Sigurvin skrifaði undir þriggja ára samning við Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin Ólafsson var í gær ráðinn þjálfari Þróttar í Lengjudeild karla. Hann skrifaði undir þriggja ára samning í Laugardalnum.

Sigurvin þjálfaði KV frá 2018-2021 og kom liðinu úr 3. deild upp í Lengjudeildina. Hann var síðan aðstoðarþjálfari hjá KR og nú síðast aðstoðarþjálfari FH.

„Tímabilið klárast og þá fer 'silly season' í gang. Þróttarar viðruðu þennan áhuga og ég ræddi við FH hvort það gæti gengið. Þetta mjakaðist áfram og endaði svona. Þetta kom bara upp fyrir rúmri viku síðan, tíu dagar. Ég var mjög hrifinn af upplegginu hjá Þrótturum og hvernig þetta lítur út hjá þeim. Ég varð strax spenntur og svo þróaðist þetta áfram," sagði Sigurvin í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Það var svo sem ekki planið þegar tímabilinu lauk að fara frá FH en svo kom þetta upp og viðræður gengu hratt og örugglega."

Hann segist þakklátur FH fyrir það hvernig tekið var á viðskilnaðinum.

„Já, ég er mjög þakklátur FH og öllu fólkinu. Ég hef fengið fullt af frábærum kveðjum frá bæði leikmönnum og starfsfólki innan félagsins. Það óska mér allir góðs gengis. Þeir sýndu mér mikinn skilning, bæði Davíð Viðars og Heimir. Viðskilnaðurinn við FH er algjörlega frábær og ég er ofsalega þakklátur þeim," segir Sigurvin.

Spenntur að taka þátt í þeirri uppbyggingu
Þróttur hafnaði í 8. sæti Lengjudeildarinnar á liðnu tímabili. Hvað var það sem heillaði við starfið hjá félaginu?

„Það eru ýmsir punktar. Þetta er ungt og efnilegt lið. Ég held að starfið sé sett upp mjög skynsamlega. Þetta er stærra félag en staðan í deildinni síðustu árin hefur verið. Þeir eru að vinna þetta hægt og bítandi upp, en ég er mjög spenntur að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Þetta er stórt hverfi og það er saga þarna. Þegar ég var leikmaður þá spilaði ég í efstu deild á móti Þrótti. Þetta er félag með sögu á efri stigum en þeir hafa verið síðustu árin. Ég held að það verkefni sem hafi verið sett í gang fyrir nokkrum árum sé að skila sér og muni skila sér enn betur á næstu árum," segir Sigurvin.

„Það er verið að byggja á grunni á Þrótturum og úr hverfinu, að reyna að halda betur í þá Þróttara sem ná árangri þó þeir hafi vissulega selt Hinrik til ÍA núna. Það er eðlilegt. Við viljum halda í kjarna og byggja liðið upp á ákveðnum heimakjarna sem mér finnst mjög skynsamlegt."

Hann segir að markmiðið sé í raun einfalt enn sem komið er.

„Í grunninn er þetta þannig séð einfalt og það er að gera betur í dag en í gær, á hverjum einasta degi. Það er nálgunin. En á sama tíma er maður keppnismaður og við förum inn í hvern einasta leik til að vinna hann. Þetta er ekki bara eitthvað gæluverkefni að bæta leikmenn, það er líka að ná í árangur. Með betri árangri kemur líka meiri stemning í félagið og í hverfið. Við ætlum að búa til fjör. Það sem ég þekki í gegnum tíðina, þá hefur verið mjög skemmtilegt fólk í kringum þetta. Við ætlum að búa til góða stemningu. Völlurinn hefur verið tekinn í gegn og það ætti að vera hægt að hrúga inn fullt af fólki á völlinn. Við ætlum að sýna þeim almennilegan og góðan fótbolta, og við ætlum að ná árangri."

Hann mun á næstu dögum leggjast yfir leikmannahóp liðsins og skoða hvaða ákvarðanir þurfi að taka með hann.

„Það er ekkert komið í ljós enn. Það er kjarni af ungum leikmönnum sem hafa verið að bera þetta uppi með blöndu af reynslumeiri leikmönnum sem teyma þá áfram. Það er sú blanda sem verður áfram lagt upp með. Það er enn óljóst hvaða leikmenn koma, fara eða verða áfram. Á næstum dögum byrja ég að leggjast yfir þetta og fljótlega hefjast æfingar," segir Sigurvin.

Lært mikið
Hann segist hafa lært mikið á því að starfa sem aðstoðarþjálfari KR og FH undanfarin ár.

„Ég tek alveg helling með mér. Ég hef verið ljónheppinn sem aðstoðarþjálfari tvö, þrjú árin. Ég er með Rúnari Kristinssyni í KR sem ég lærði óskaplega mikið af. Ég lærði ekki síður mikið af Heimi Guðjóns í FH. Þetta eru goðsagnir í bransanum. Maður hefur lært mjög mikið af þeim og ég verð alltaf þakklátur fyrir það sem ég hef náð að læra af þeim. Ég var líka með Eiði Smára í fyrra sem er önnur goðsögn. Ég hef verið heppinn með samstarfsmenn. Núna er komið að því að standa á eigin fótum og sýna hvað ég hef lært."

Hann er spenntur fyrir því að gerast aðalþjálfari aftur eftir að hafa stýrt KV áður.

„Það er svo sem kannski ástæðan fyrir því að ég stekk á þetta, að þróast í að verða aftur aðlþjálfari. Það er góð stemning og gleði í Þrótti, og það verður að vera gleði í þessu. Glaðir fótboltamenn spila yfirleitt góðan fótbolta," sagði Sigurvin að lokum en það verður spennandi að sjá hvernig honum farnast í Laugardalnum.
Athugasemdir
banner
banner