Villa í slaginn um Calvert-Lewin - Newcastle býst við tilboði frá Liverpool - Man Utd blandar sér í baráttuna um Kolo Muani
   mán 28. júlí 2025 12:30
Elvar Geir Magnússon
Sænsk og hollensk dómarasamvinna í Kópavogi
Adam Ladebäck hefur áður dæmt á Kópavogsvelli.
Adam Ladebäck hefur áður dæmt á Kópavogsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Ladebäck frá Svíþjóð verður dómari á seinni leik Breiðabliks og Lech Poznan í forkeppni Meistaradeildarinnar en leikurinn fer fram á Kópavogsvelli á miðvikudagskvöld.

Ladebäck er kunnugur staðháttum en hann dæmdi leik Breiðabliks og Shamrock Rovers fyrir tveimur árum, leik sem Blikar unnu 2-1. Ladebäck fékk 8 í einkunn frá Arnari Laufdal, fréttamanni Fótbolta.net.

„Virkilega vel dæmdur leikur hjá Svíanum, ekkert út á hann að setja," skrifaði Dalurinn í skýrslu leiksins.

Aðstoðardómararnir á miðvikudag, og fjórði dómarinn, koma einnig frá Svíþjóð en hinsvegar eru VAR dómarar leiksins frá Hollandi. Jeroen Manschot verður aðal VAR dómari leiksins.

Líkurnar á því að Breiðablik vinni einvígið eru svo gott sem engar eftir 7-1 sigur Lech Poznan í fyrri leiknum. Evrópuþátttaka Blika mun þó halda áfram en þeir munu fara niður í forkeppni Evrópudeildarinnar. Zrinjski Mostar frá Bosníu og Hersegóvínu verður að öllum líkindum næsti Evrópuandstæðingur Breiðabliks.

Sambandsdeildin
Peiman Simani frá Finnlandi mun dæma á Greifavellinum á fimmtudag þegar KA fær Silkeborg frá Danmörku í heimsókn í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri viðureign liðanna endað með 1-1 jafntefli.

Dalibor Cerny frá Tékklandi verður með flautuna á Hlíðarenda þegar Valur tekur á móti Kauno Zalgiris en fyrri leikurinn endaði 1-1. Þá verður Mihaly Kapraly frá Ungverjalandi dómari á leik Víkings og Vllaznia frá Albaníu en Víkingar þurfa að snúa dæminu við eftir að hafa tapað 2-1 í fyrri leiknum.
Athugasemdir
banner