Svíinn Anton Kralj er á förum frá Vestra. Þetta staðfesti hann í samtali við sænska miðilinn Fotboll Direkt.
Kralj er vinstri bakvörður sem gekk til liðs við Vestra fyrir tímabilið á frjálsri sölu frá Hammarby og heillaði með frammistöðum sínum fyrri hluta tímabils áður en að það fór að halla undan fæti fyrir vestan.
Samningur Kralj rennur út um miðjan nóvember og segir hann í samtali við sænska miðilinn að hann hafi rætt við umboðsmann sinn um leit á nýju liði.
„Samningur minn við Vestra er að renna út og því miður endaði þetta ekki eins og við vildum, en svona er fótboltinn.“
„Félagið hefði líklega viljað halda mér, en íslenska 1. deildin kveikir ekki alveg neistann. Auk þess er fjárhagsstaða félagsins núna minni, sem gerir þeim erfiðara fyrir að halda byrjunarliðsmönnum frá þessu tímabili. Þetta er því líklega blanda af þessum þáttum.“
Kralj segir markmiðið vera að stefna á sænsku Allsvenskuna.
„Auðvitað gæti ég vel hugsað mér að spila aftur í Svíþjóð. Það er mjög skemmtileg deild og stuðningsmennirnir gera hana aðlaðandi. Ég veit að ég hef gæði til að spila í Allsvenskan, en sjáum bara hvað kemur. Allsvenskan er þó klárlega aðalmarkmiðið.“



