Á síðustu vikum hafa tveir þjálfarar sem ég vann með á mínum yngri árum fengið starf í ensku úrvalsdeildinni hjá Liverpool og West Brom. Roberto Di Matteo og Eddie Newton tóku líka æfingar hjá unglingaliði Chelsea á meðan þeir voru að afla sér þjálfararéttinda svo ég hef því starfað undir stjórn þriggja stjóra í ensku úrvalsdeildinni og þjálfara Real Madrid. Ég hef líka aðstoðarþjálfara PSG á listanum. Ég tel sjálfan mig því hafa verið nokkuð heppinn.
Steve Clarke átti langan og farsælan feril hjá þeim bláu áður en hann tók við unglingaliðinu. Ég naut þess virkilega að vinna undir hans stjórn en því miður var sá tími stuttur vegna meiðsla. Hann lét mig spila í U19 ára liðinu þegar ég var 15 ára og setti mig í varaliðið nokkrum vikum eftir að ég skrifaði undir ‘lærlingasamning’ þá 16 ára gamall. Hann sendi mig einnig á æfingar með aðalliðinu áður en ég varð fyrir meiðslum. Hann var ástæðan fyrir því að ég ákvað að vera áfram hjá Chelsea þegar ég var 16 ára þrátt fyrir áhuga frá Fulham. Ég naut þess mikið að æfa undir hans stjórn. Hann var mjög rólegur á hliðarlínunni og gat komið með góðar ráðleggingar, sérstaklega þar sem hann spilaði sjálfur sem bakvörður. Hann talaði rólega en var miskunnarlaus og harður verkstjóri. Hann gat verið reiður þegar hann vildi og þegar hann var reiður þá vissir þú af því. Hann fylgdist með og greip í taumana þegar á þurfti að halda. Ég kunni mjög vel við hann og vildi óska þess að ég hefði spilað lengur undir hans stjórn. Ég held að hann hafi kunnað vel við mig sem leikmann og ég var fullur sjálftraust þegar ég spilaði í hans liði. Þetta er eitthvað sem er mikilvægt fyrir mig sem einstakling, að finna fyrir trausti hjá stjóranum.
Þegar hann varð aðstoðarmaður Mourinho þá skildi hann nánast alveg við unglingaliði. Hann var í erfiðu starfi og var ekki að beita sér fyrir því að ungu leikmennirnir myndu fá tækifæri, hann bara sinnti sínu starfi með aðalliðinu og Mourinho virtist kunna mjög vel að meta það.
Það verður spennandi að sjá hvernig hann mun fara úr því að vera traustur og reyndur aðstoðarmaður í að vera stjóri og taka ákvarðanir sem hann einn ber ábyrgð á. Ég held að hann muni halda West Brom í svipaðri stöðu og ég býst við að hann eigi eftir að koma með nokkur skemmtileg ummæli í viðtölum eftir leiki.
Brendan Rodgers þjálfaði með pabba mínum í unglingaliði Reading svo ég hef þekkt hann síðan ég var kannski 13 ára gamall. Hann er mjög góður og vingjarnlegur maður, eitthvað sem er sjaldgæft í fótboltanum. Ég hélt að hann væri of vingjarnlegur til að ná árangri sem stjóri en þær hugsanir mínar hafa reynst vera rangar. Hann þjálfaði Reading liðið sem ég mætti með unglingaliði Chelsea áður en hann kom inn í unglingastarfið hjá Chelsea eftir að hafa heillað Steve Clarke á þjálfaranámskeiði. Hann kom eftir að Clarke fór að starfa með aðalliðinu. Hann var mjög hrifinn af bróður mínum Joe sem leikmanni og ég vildi óskaði þess að hann hefði verið þjálfari varaliðsins þegar ég var þar en hann tók við því starfi eftir að bæði ég og Joe höfðum yfirgefið félagið. Þegar hann þjálfaði okkur þá voru æfingar hans stórkostlegar og mjög skemmtilegar, hann hafði frábærar hugmyndir um það hvernig á að spila. Hann var mjög hvetjandi og jafnvel of hvetjandi því þegar kom að því að láta unga leikmenn fara þá skildu leikmennirnir ekki af hverju hann hefði verið svona jákvæður í þeirra garð. Þeir töldu að þeir hefðu verið að standa sig betur en þeir höfðu verið að gera. Þetta er samt mögulega eitthvað sem hann hefur náð að þurrka út eftir að hafa öðlast meiri reynslu.
Hann var frábær unglingaþjálfari, hann gerði unglingaliðið mjög sterkt og hvatti leikmenn til að sýna hvað í þeim bjó.
Þegar ég var á síðasta árinu mínu hjá Chelsea þá var félagið mjög erfitt. Þeir leyfðu leikmönnum ekki að fara á láni og töluðu aldrei við mig um framtíð mína. Ég vildi ekki vera áfram því ég var ekki að njóta þess og ferill minn var ekki að taka neina stefnu. Brendan hafði samband við fólk sem hann þekkti og reyndi að hjálpa mér að finna nýtt félag, eitthvað sem enginn hjá Chelsea gerði og ég er mjög þakklátur honum fyrir það. Hann þurfti ekki að gera þetta. Þegar hann varð þjálfari varaliðsins þá hvatti hann leikmenn til að fara á láni til að reynslu og hann hjálpaði þeim að finna góð félög. Ekki bara einhver félög. Hann var ráðgjafi fyrir ungu leikmennina. Ég myndi gjarnan vilja spila undir hans stjórn, ég myndi elska það að finna fyrir trausti á mínum hæfileikum og fara út á völl og spila. Spila og færa. Þegar hann missti starfið hjá ‘sínu félagi’ Reading þá týndi hann ekki hugsjónum sínum. Hann vissi hvernig hann vildi spila og hélt því áfram. Minni þjálfari hefði farið í beinskeyttari fótbolta til að vera öruggari í starfi en hann gerði það ekki.
Eitt er á hreinu og það er að Liverpool mun spila frábæran fótbolta eins og Swansea gerði. Hann mun ná því besta út úr leikmönnunum. Hann mun kaupa og spila tæknilega góðum fótboltamönnum og ef að Gylfi Sig fylgir honum á Anfield gæti hann orðið ein af stjörnunum í ensku úrvalsdeildinni þó að það sé líklegra að hann fari til Spurs. Ég vona bara að eldri leikmennirnir í búningsherberginu grafi ekki undan honum. Eins og þeir gerðu við Roy Hodgson. Ef að þeir gera það ekki þá held ég að stuðningsmenn Liverpool geti hlakkað til.
Varðandi Mourinho þá var þjálfunin best hjá honum. Eftir EM 2004 æfðu leikmennirnir í varaliðinu og þeir leikmenn í aðalliðinu sem fóru ekki á mótið saman í tvær vikur. Þetta voru bestu tvær æfingavikur mínar frá upphafi. Atvinnumennskan var í fyrirrúmi. Allar æfingarnar voru tilbúnar þegar við mættum, 45 mínútum áður en æfingin hófst. Þess vegna gátum við farið úr einni æfingu yfir í aðra. Það var enginn bið á meðan þjálfarar settu keilur upp eða voru að hugsa eitthvað. Þetta var allt skipulagt af nákvæmni eins og í hernum. Hann var með æfinguna á blaði og allar æfingarnar voru með boltann fyrir utan þriggja mínútna Fartlek hlaup. ‘Að æfa án bolta er eins og að segja píanóleikara að hlaupa í kringum píanóið,’ sagði Rui Faria þolþjálfari hans. Það var mikið af teygjum og mikið af stuttum snörpum æfingum. Það var mikil áhersla lögð á breytinguna sem verður í leikjum þegar liðið vinnur eða tapar boltanum. Það er að hans mati mikilvægasti hluti leiksins. Við fórum í æfingar þar sem við héldum bolta, vanalega með auka leikmenn sem voru fyrir utan þegar við unnum á stuttu svæði. Þetta varð til þess að þegar þú tapaðir boltanum þá var þitt lið fámennara og þar sem liðin voru vanalega ‘aðalliðið’ v ‘varaliðið’ þá var það eyðileggjandi fyrir sálina að vera að elta eins og skugginn í sumarsólinni.
Þegar að aðalliðsleikmennirnir sem voru á Evrópumótinu komu til baka þá fórum við aftur til Mick McGiven sem þjálfaði okkur í varaliðinu og hann reyndi að nota þessar nýju og fagmannlegu hugmyndir. Það var ekki eins en það bætti gæðin samt mikið. Okkur var kennt hvaða leið væri best til að spila 4-3-3 og 4-4-2 með tígulmiðju. Við þurftum að geta skipt um kerfi þegar það var nauðsynlegt án þess að þurfa að hafa fyrir því. Unglingaliðið þurfti einnig að aðlgast þessari hugsjón.
Mourinho horfði ekkert á varaliðið en ég er ekki reiður út í hann, af hverju ætti hann að láta okkur spila þegar Abramovich gat keypt heimsklassa leikmann fyrir hann í staðinn? Hins vegar kemur mér ekkert á óvart hversu vel honum hefur vegnað, því æfingarnar hjá honum og öll smáatriði voru ótrúlega vel skipulögð. Ég á ennþá bókina sem hann gaf öllum leikmönnum þegar hann tók við liðinu en þar voru reglur og leiðbeiningar. Gæðin í því hvernig andstæðingarnar voru greindir voru einnig í fyrsta gæðaflokki. Sú vinna var í höndum Andre Villas Boas. Ég tók vanalega með mér fjögurra síðna skýrslur um lið andstæðinganna um hverja helgi til að leyfa pabba að skoða þær. Skýrslurnar höfðu verið skildar eftir á liðsfundum og þarna voru stuttorð og nákvæm atriði sem voru mjög áhugaverð.
Það fá ekki margir tækifæri til að vinna með fólki af þessum gæðaflokki og ég tel sjálfan mig hafa verið heppinn að fá tækifæri til þess.
Athugasemdir