Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 30. ágúst 2016 17:30
Arnar Daði Arnarsson
Best í 13. umferð: Væri gaman að ná fleiri landsleikjum
Dóra María Lárusdóttir - Valur
Dóra María í leik í sumar.
Dóra María í leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dóra María í landsleik.
Dóra María í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér fannst leikurinn nokkuð kaflaskiptur en heilt yfir var þetta sanngjarn sigur. Mér fannst við betri í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera nokkuð lengi í gang en við nýttum færin vel. FH-stelpur komu hins vegar mun ákveðnari til leiks í seinnihálfleik og þær jafnvel óheppnar að minnka ekki muninn," segir Dóra María Lárusdóttir, leikmaður 13. umferðar í Pepsi-deild kvenna.

Dóra María skoraði tvívegis í 4-0 útisigri Vals á FH í síðustu viku.

„Þetta var ekki besti leikur okkar í sumar en að halda hreinu og skora fjögur er alltaf gott dagsverk. Áttum nokkrar vel uppbyggðar sóknir frá aftasta manni og nýttum vængina vel. Ég var ánægð með hvað við vorum þolinmóðar í fyrri hálfleik og skynsamar í þeim seinni," sagði Dóra en hún var ánægð með mörkin.

„Ég var bara ágætlega sátt við mína frammistöðu. Ég hef ekkert verið sérlega iðin fyrir framan markið undanfarin ár svo það var gaman að skora loksins tvö. Sérstaklega sátt með seinna markið þar sem það hefur oft vantað í minn leik að skora fleiri þefmörk."

Valur er í 3. sæti í Pepsi-deildinni en hvernig finnst Dóra María spilamennskan hafa verið í sumar, bæði hjá sér og liðinu?

„Ætli spilamennska mín hafi ekki verið upp og niður eins og hjá liðinu öllu í sumar. Höfum verið nokkuð óheppnar með meiðsli og áttum erfiða byrjun á mótinu með tveimur jafnteflum. Mér finnst við hafa sýnt að það býr ansi mikið í liðinu og þegar við hittum á okkar dag getum við spilað ansi skemmtilegan fótbolta og verið bara asskoti góðar."

Dóra María tók sér frí frá fótboltanum í fyrra en þessi 31 árs gamli miðjumaður tók skóna fram að nýju fyrir tímabilið.

„Ég nýt þess að vera byrjuð aftur þó þetta sé auðvitað helmikil skuldbinding og tímafrekt á köflum en allt er þetta þess virði," sagði Dóra en breytingin er talsverð frá því hún var síðast í fótboltanum.

„Síðast þegar ég var að spila var ég í skóla og hafði því meira svigrúm til að æfa aukalega en ég hef núna með fullri vinnu. Ég held samt að hugarfarið hafi svo sem lítið breyst. Keppnismaðurinn fer ekkert úr manni þó maður taki sér aðeins frí."

Dóra María spilaði fyrr í sumar sinn 200. meistaraflokksleik með Val. Ætlar hún að taka mörg tímabil í viðbót?

„Fyrst og fremst langar mig bara að reyna að klára þetta tímabil vel áður en ég fer að hugsa eitthvað lengra en á meðan ég hef gaman af sé ég enga ástæðu til að hætta."

Á ferli sínum hefur Dóra María spilað 108 landsleiki en sá síðasti kom árið 2014. Gerir hún sér vonir um að komast aftur í landsliðið?

„Án þess að ætla að gera mér einhverjar miklar vonir þá held ég að flestar fótboltakonur vilji taka þátt í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru hjá landsliðinu. Það væri virkilega gaman að ná einhverjum leikjum til viðbótar með landsliðinu en minn fókus er með Valsliðinu og við sjáum bara til hvert það leiðir," sagði Dóra.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 12. umferðar - Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 11. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 10. umferðar - Cloe Lacasse (ÍBV)
Leikmaður 9. umferðar - Sandra Sif Magnúsdóttir (Fylkir)
Leikmaður 8. umferðar - Arna Sif Ásgrímsdóttir (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Írunn Þorbjörg Aradóttir (Þór/KA)
Leikmaður 6. umferðar - Elín Metta Jensen (Valur)
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner