Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 11. júlí 2019 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnór Sig vill gera enn betur: Skora og leggja meira upp
Arnór Sigurðsson og Gareth Bale.
Arnór Sigurðsson og Gareth Bale.
Mynd: Getty Images
Arnór í landsleik.
Arnór í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
CSKA hafnaði í fjórða sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
CSKA hafnaði í fjórða sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
CSKA Moskva hefur leik í rússnesku úrvalsdeildinni á sunnudag þegar liðið sækir Krylya Sovetov heim.

Með liðinu leika Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon. Arnór endaði undirbúningstímabilið fullkomlega, með því að skora þrennu í síðasta æfingaleiknum.

„Það er auðvelt að segja að þetta gefi mér fínasta sjálfstraust inn í tímabilið," segir Arnór í samtali við Fótbolta.net.

Það var ekki nóg með að Arnór skoraði þrennu. Eftir leikinn á þriðjudag birtist af honum myndband í körfubolta og óhætt er að segja að hæfileikar Arnórs liggja ekki einungis á fótboltavellinum. Skagamaðurinn hitti átta sinnum í röð ofan í körfuna og náði hann að heilla áhorfendur sem voru í kringum hann.

„Þetta var sem sagt dagur þar sem leikmenn voru með stuðningsmönnunum í alls konar þrautum. Meðal annars í körfubolta. Ég myndi nú ekki fara að segja að ég sé bilað góður í körfubolta. Ég var bara heitur þarna og setti nokkrar í röð," segir Arnór.

Vill gera enn betur
Framundan er annað tímabil hins tvítuga Arnórs hjá CSKA í Rússlandi. Hann var keyptur þangað frá Norrköping í ágúst síðastliðnum. Það er óhætt að segja að Arnór hafi heillað á sínu fyrsta tímabili í Rússlandi.

Hann skoraði sjö mörk í 27 leikjum í öllum keppnum, þar af komu tvö í Meistaradeildinni. Annað markið kom í 3-0 sigri gegn Evrópumeisturum Real Madrid á Santiago Bernabeu.

CSKA verður í Evrópudeildinni á næstu leiktíð eftir að hafa endað í fjórða sæti rússnesku deildarinnar. Arnór líst vel á tímabilið sem framundan er.

„Mér líst vel á komandi tímabil, liðið okkar er ungt en samt sem áður árinu eldra en í fyrra, og það munar helling. Við þurfum að finna stöðugleikann því gæðin eru svo sannarlega til staðar."

„Ég vil gera enn betur en á síðasta tímabili, skora meira og leggja upp fleiri mörk. En auðvitað vil ég fyrst og fremst að liðið nái þeim árangri sem við stefnum að."

Er með fulla einbeitingu á CSKA
Arnór hefur verið orðaður við stórlið í Evrópu síðustu mánuði. Hafa félög á borð við Borussia Dortmund og Napoli verið nefnd til sögunnar.

Hann segir að áhuginn kitli en hann sé auðvitað einbeittur á CSKA sem stendur.

„Eins og ég hef sagt þá líður mér vel í Moskvu. Það er spennandi tímabil framundan, en auðvitað kitlar þegar stóru liðin hafa samband, annað væri bara skrítið."

„En ég er með fulla einbeitingu á það sem er í gangi núna hjá CSKA. Síðan kemur hitt allt saman bara í ljós," sagði Arnór Sigurðsson, landsliðsmaður og leikmaður CSKA Moskvu.



Athugasemdir
banner
banner
banner