Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fös 01. apríl 2022 10:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kristján Flóki fótbrotnaði í gær - Bíður eftir aðgerð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Flóki Finnbogason, sóknarmaður KR, mun missa af hluta Íslandsmótsins vegna meiðsla en hann meiddist illa í æfingaleik gegn HK í gær.

Flóki fótbrotnaði eftir að hafa farið í návígi við leikmann HK. Flóki er kominn í gifs og er óvíst hversu lengi hann verður frá vegna meiðslanna.

Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, í morgun.

„Þetta lítur illa út, mjög slæmt. Flóki er í gifsi núna og er að bíða eftir aðgerð. Þetta er fótbrot, eitthvað bein sem ég kann ekki að nefna en er utanvert á leggnum. Hann fékk greiningu seint í gærkvöldi og er að bíða núna eftir svari frá læknum hvenær hann kemst í aðgerð," sagði Rúnar.

„Flóki er búinn að vera frábær í vetur og var kominn í gríðarlega gott stand. Það er hrikalega slæmt fyrir okkur að missa hann, búinn að vera mikilvægur hlekkur undanfarin ár og það er mjög sorglegt fyrir hann að lenda í þessum meiðslum eftir mikla erfiðisvinnu. "

Þarf að skoða hópinn núna, hvort eitthvað verði tekið inn í staðinn?

„Nei, við erum nokkra sentera. Kjartan Henry [Finnbogason] er hjá okkur - reyndar í banni í fyrstu tveirmu leikjunum, síðan erum við með Stefan Ljubicic og Sigurð Bjart Hallsson sem hafa spilað fyrir okkur í vetur. Við erum með möguleika í stöðunni og þurfum ekki að sækja neinn í fremstu stöðu. Þetta er bara hundleiðinlegt fyrir okkur, sérstaklega fyrir Flóka sjálfan og líka fyrir okkur þjálfarana því okkur þykir vænt um okkar leikmenn. Það er alltaf leiðinlegt þegar menn meiðast og verða frá í langan tíma," sagði Rúnar.

Fréttaritari ræddi einnig stuttlega við Flóka. „Þetta var 50:50 bolti á móti leikmanni HK og eftir það þurfti ég að fá skiptingu. Ég verð frá í einhvern tíma, veit ekki nákvæmlega hversu langan. Ég hef ekki lent í svona áður og bað bara strax um sjúkraþjálfara, hvort það var adrenalín eða eitthvað... ég fann bara skrítna tilfinningu ekki eins og ég hafi meitt mig - fann bara að það var eitthvað ekki í lagi," sagði Flóki.

Að öllt öðru og minna mikilvægu þá vann KR leikinn 1-0 og var það Sigurður Bjartur Hallsson sem skoraði sigurmark KR.
Athugasemdir
banner
banner
banner