Víkingur R. 1- 1 Valur (4-2 í vítaspyrnukeppni)
1-0 Elfar Freyr Helgason ('1 , sjálfsmark)
1-1 Birkir Már Sævarsson ('13 )
Víkingur er meistari meistaranna árið 2024 eftir sigur á Val í vítaspyrnukeppni.
Það var mikill kraftur í Víkingum í upphafi leiks en liðið komst yfir eftir innan við mínútu leik. Erlingur Agnarsson fékk boltann eftir innkast og átti sendingu inn á teiginn, Elfar Freyr Helgason varnarmaður Vals varð fyrir því óláni að tækla boltann í netið og kom Víkingum yfir.
Eftir tæplega stundafjórðung fékk Valur hornspyrnu. Gylfi Þór Sigurðsson tók hana, sendi boltann út á Aron Jóhannsson sem átti skot í varnarmann, boltinn barst til Birkis Más sem negldi boltanum viðstöðulaust í netið.
Danijel Djuric fékk tækifæri til að koma Víkingum yfir strax í upphafi síðari hálfleiks þegar hann fékk boltann eftir slæma sendingu frá Tryggva Hrafni en skot hans fór yfir markið.
Það ætlaði allt um koll að keyra eftir klukkutíma leik þegar Halldór Smári Sigurðsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann braut á Lúkasi Loga Heimissyni. Það var hasar inn á vellinum og einnig á hliðarlínunni. Hajrudin Cardaklija í þjálfarateymi Víkinga fékk að líta rauða spjaldið.
Mörkin urðu ekki fleiri svo grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.
Nikolaj Hansen setti boltann framhjá úr fyrstu spyrnu keppninnar en það kom ekki að sök. Ingvar Jónsson var hetja Víkinga í vítaspyrnukeppninni en hann varði tvær vítaspyrnur frá Patrik Pedersen og Kristni Frey Sigurðssyni.
Víkingar eru meistarar meistaranna 2023. Hér er seinni vítavarsla Ingvar, sigurvíti Olivers Ekroth og fögnuður Víkinga?????? pic.twitter.com/lNeakGPTCQ
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 1, 2024