
Hann fékk lítið að spila fyrri hluta þessa tímabils en KA menn hafa ekki áhyggjur af forminu og gæti hann þreytt frumraun sína strax á morgun.
„Við erum búnir að hlera hann og hans lið síðasta hálfa árið eða svo, svo einhvern veginn féllu púslin núna og þetta gekk í gegn," segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, um komu Birnis Snæs Ingasonar til félagið en þau tíðindi voru staðfest í morgun.
Birnir Snær skrifar undir samning við KA sem gildir út tímabilið, kemur frá sænska félaginu Halmstad.
Birnir Snær skrifar undir samning við KA sem gildir út tímabilið, kemur frá sænska félaginu Halmstad.
„Við þurftum á innspýtingu og 'attitjúdi' að halda og ég held að Birnir komi með akkúrat það sem okkur vantar. Hann kemur til Íslands á eftir og annað hvort norður í kvöld eða strax í fyrramálið. Við erum að vinna í því að hann fái leikheimild fyrir leikinn gegn ÍA á morgun. 7-9-13 á að það gangi."
Fótbolti.net hafði heimildir fyrir því að Birnir kæmi á láni frá Halmstad. Viðræðurnar hófust þannig, en þróuðust svo á þá leið að Birnir er búinn að rifta samningi sínum við sænska félagið, kemur því á frjálsri sölu og skrifar undir samning sem gildir út þetta ár. Þetta staðfestir Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Birnis í samtali við Fótbolta.net. Sævar vonast til að Birnir verði með gegn ÍA á morgun.
„Mér finnst líklegra en ekki að allir pappírar verði klárir í dag svo hann geti verið með á morgun, við vorum vaknaðir snemma í morgun og fórum seint að sofa í gær til þess að ýta við Halmstad að senda þá pappíra sem vantar. Við erum búnir að ganga frá öllu okkar megin og vonandi kemur leikheimildin inn í dag."
Birnir hefur einungis komið við sögu í fimm leikjum á tímabilinu og spilaði síðast í byrjun maí. Hafa KA menn áhyggjur af leikforminu?
„Ég hef ekki miklar áhyggjur af því, held að Birnir sé í fantaformi, væri vissulega betra að vera með fleiri mínútur bakvið sig akkúrat núna, en hann bara kemur og tekur þær hjá okkur. Hann er með mikil gæði og mun þekkja allt í þessari deild. Það verður ekkert vandamál."
Það hefur síðustu daga verið slúðrað um að Birnir sé með gott samningstilboð á borðinu, hátt tilboð. Er þetta hár samningur á mælikvarða KA?
„Hann kemur og gerir samning við okkur til áramóta. Ég held að menn geti alveg lagt saman tvo og tvo, það að ná í prófíl eins og Birni, sem var valinn besti leikmaðurinn í deildinni fyrir átján mánuðum síðan, þú þarft alveg að telja upp úr dósapokunum til að láta það ganga heim og saman, en þetta er ekkert sem við ráðum ekki við og höfum ekki séð áður."
Er í þessum viðræðum við Birni rætt um mögulegt framhald?
„Já, en eigum við ekki að leyfa honum og fjölskyldu að koma norður og heillast að akureysku landi og loftslagi? Svo setjumst við niður og ræðum framhaldið þegar þau eru búin að koma sér fyrir."
Bæði Birnir og kærasta hans eru með tengingar norður.
Vantaði upp á gæði frekar en mannskap
Er KA að vinna í einhverju meira fyrir þennan glugga?
„Ég ætla ekki að segja að við séum hættir, en okkur vantar í raun ekki mannskap. Okkur hefur frekar vantað upp á ákveðin gæði sem við höfum verið að leita eftir, og ef við getum fengið gæða leikmann sem býður upp á þau gæði þá munum við skoða það með opnum hug. Birnir tikkaði svo sannarlega í þau box sem við vorum að leita að og við fórum 'all-in' í að láta það verða að veruleika."
KA er í botnsæti Bestu deildarinnar sem stendur og á mikilvægan leik á morgun gegn ÍA sem er með jafnmörg stig.
Ekki á förum eins og staðan er í dag
Það hefur verið slúðrað um að Jóan Símun Edmundsson og Viðar Örn Kjartansson gætu farið frá KA. Getur þú eitthvað sagt um það?
„Þeir eru okkar leikmenn og eru ekki að fara neitt, ekki nema það komi eitthvað tilboð sem er spennandi fyrir báða aðila. Það er ekkert markmið hjá okkur að losa þá. Viðar er búinn að vera meiddur undanfarnar vikur, er farinn að æfa á fullu og getur vonandi komið inn í hópinn og lagt sitt að mörkum til að hjálpa okkur í þessari erfiðu stöðu."
Samkvæmt umboðsmanni Birnis voru fleiri íslensk félög á eftir honum. Heimkoma var ekki í kortunum hjá Birni en það breyttist og var hann klár í þá áskorun að hjálpa KA í þeirri baráttu sem liðið er í. Hjá KA hittir Birnir fyrir fyrrum liðsfélaga sinn, Hans Viktor Guðmundsson, en þeir léku saman hjá uppeldisfélaginu Fjölni.
Athugasemdir