Þýski markvörðurinn Stefan Ortega passaði sig á því að fara fínt í hlutina þegar hann var spurður út í Liverpool eftir 2-0 tap Manchester City á Anfield í gær.
Ortega kom inn í markið í stað Ederson fyrir leikinn og gerði ágætlega miðað við færafjölda. Hann fékk að vísu á sig vítaspyrnu í síðari hálfleiknum en gat lítið annað gert en að keyra út í Luis Díaz eftir slæm mistök frá varnarmönnum Man City.
Eftir að Liverpool komst í tveggja marka forystu fóru stuðningsmenn Liverpool að syngja um Pep Guardiola, stjóra Man City, og um að hann yrði rekinn í dag. Þekktur söngur sem stuðningsmenn flestra liða syngja til þess að stríða andstæðingnum.
Ortega var spurður út í þessa söngva og fór Þjóðverjinn með viðtalið í allt aðra átt.
„Einhver sagði mér að þetta svæði er sennilega ekki besti parturinn af Bretlandseyjum. Mér fannst Guardiola bregðast mjög vel við þessu,“ sagði Ortega.
Netverjar eru nokkuð vissir um að þarna hafi Ortega verið að fara fínt í það að kalla Liverpool „skítaholu“. Margir hafa lýst yfir vonbrigðum með ummæli Ortega, sem hafi stigið niður á lágt plan að gagnrýna borgina.
Athugasemdir