Þór/KA hefur fengið öfluga viðbót við leikmannahópinn en Eva Rut Ásþórsdóttir er gengin í raðir félagsins frá Fylki.
Eva Rut er 23 ára gömul og gegndi hlutverki fyrirliða hjá Fylki í þrjú tímabil.
Hún er kröftugur miðjumaður og öflug í bæði vörn og sókn, en hún kom til Fylkis frá HK/Víkingi árið 2020.
Eva er uppalin í Aftureldingu og spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki með liðinu árið 2016 en síðan þá hefur hún spilað 116 leiki í deild- og bikar og skorað 28 mörk.
Einnig spilaði hún 23 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði 5 mörk.
„Við erum himinlifandi með að fá Evu til okkar í Þór/KA. Eva er fjölhæf með mikla hæfileika og reynslu sem á eftir að smellpassa inn í okkar lið. Ég er sannfærður um að Eva á eftir að taka næsta skref á sínum ferli hérna hjá okkur ásamt því að gera liðið okkar enn betra. Þetta er mikill fengur fyrir okkur og við hlökkum mikið til að vinna með henni,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, í samtali við heimasíðu félagsins.
Athugasemdir