Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 05. janúar 2021 12:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Alex Þór: Rétt og heilsteypt skref
Alex í leik með Stjörnunni.
Alex í leik með Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, gekk á dögunum til liðs við Öster í sænsku B-deildinni. Alex hefur verið lykilmaður í Stjörnunni undanfarin ár en hann hefur nú tekið skrefið í atvinnumennskuna erlendis, síðar en margir bjuggust við.

Alex var í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 97,7 á laugardaginn þar sem hann ræddi um félagaskiptin.

„Ef maður stendur sig vel á Íslandi er skiljanlegt að manni finnist að maður eigi að taka næsta skref. Mér hefur fundist það sjálfur ef ég á að vera alveg heiðarlegur að ég geti tekið næsta skref sem hefur verið markmiðið lengi," sagði Alex í útvarpsþættinum.

„Öster hefur fylgst vel með mér undanfarin tvö ár. Mér fannst mikilvægt að passa í liðið, ekki fara út bara til að fara út. Fyrir mig er þetta réttur tímapunktur og gott skref til að halda áfram að spila. Ég hef spilað síðustu fjögur tímabil með Stjörnunni og ég vil halda því áfram til að þróa minn leik. Heilt yfir fannst mér þetta vera rétt ákvörðun núna. Ég hlakka gríðarlega til að takast á við þessa nýju áskorun."

Öster endaði í 4. sæti í sænsku B-deildinni á síðasta tímabili en stefnir ofar í ár.

„Þetta er ekki stærsti klúbburinn í Svíþjóð. Þeir enduðu í fjórða sæti á síðata tímabili og ætla að setja allt púður í að fara upp núna. Þetta eru mest allt Svíar í liðinu og það veðrur mikilvægt að komast inn í sænskuna. Þetta er ungur hópur og það verður mjög spennandi að taka þátt í þessu,"

Alex er í U21 landsliðinu sem spilar í lokakeppni EM í mars. Íhugaði hann ekki að bíða með að skipta um félag fyrr en eftir það mót?

„Auðvitað velti maður því mikið fyrir sér. Þegar öllu var á botninn hvolft fannst mér þetta vera rétt og heilsteypt skref sem ég var orðinn virkilega spenntur fyrir. Ef eitthvað kemur upp eftir EM þá er ég viss um að það mun leysast. Mér fannst þetta vera rétta skrefið á þessum tímapunkti. Ég get ekki beðið eftir að byrja þetta ævintýri," sagði Alex.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Alex í heild en þar ræðir hann meðal annars meira um U21 landsliðið. Viðtalið hefst eftir 34 mínútur.
Útvarpsþátturinn - Man Utd upp að hlið Liverpool og Alex til Svíþjóðar
Athugasemdir
banner
banner