Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   mán 05. apríl 2021 12:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Hefði yngt liðið fyrir þessa keppni - „Flestir í hópnum á niðurleið"
Icelandair
Byrjunarlið Íslands gegn Þýskalandi.
Byrjunarlið Íslands gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorlákur þjálfaði yngri landslið Íslands.
Þorlákur þjálfaði yngri landslið Íslands.
Mynd: KSÍ
Jóhann Berg Guðmundsson hefur mikið verið á meiðslalistanum.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur mikið verið á meiðslalistanum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorlákur Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Hong Kong og fyrrum þjálfari yngri landsliða Íslands, var í áhugaverðu viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Hann ræddi þar um þróun mála hjá íslenska landsliðinu og talaði meðal annars um háan meðalaldur liðsins og hversu margir lykilmenn væru að nálgast endastöð ferils síns. Þorlákur segir að hann hefði sjálfur yngt meira upp í liðinu fyrir yfirstandandi undankeppni HM ef hann væri þjálfari Íslands.

Ísland er með þrjú stig eftir þrjá fyrstu leiki sína í undankeppni HM, liðið tapaði gegn Þýskalandi og Armeníu en vann Liechtenstein.

„Það er til hugtak sem heitir 'Performance clock' og er mikið notað hjá félagsliðum í heiminum. Það snýst um það að félögin eru að ná ákveðnum árangri og á meðan þarf að endurnýja liðið svo þú lendir ekki í veseni eftir tvö til fjögur ár. Ferguson var snillingur í þessu og Wenger var sá fyrsti sem byrjaði að gera bara eins árs samning við leikmenn sem voru orðnir þrítugir," segir Þorlákur.

„Hjá landsliðum er þetta miklu erfiðara. Ástæðan fyrir því að við náðum svona langt er að við náðum svo mörgum sterkum leikmönnum upp á sama tíma í gegnum þetta umtalaða U21 lið. Núna er hin hliðin á teningnum að við erum að missa sterka leikmenn á sama tíma."

Alfreð og Jói eiga erfitt með að spila með báðum liðum
Tveir af bestu leikmönnum íslenska landsliðsins, Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson, hafa mikið verið að glíma við meiðsli og segir Þorlákur ljóst að landsliðið geti ekki lengur reitt sig á þjónustu þeirra.

„Okkar bestu leikmenn eru Gylfi, Jói og Alfreð og þeir eru að spila í sterkustu deildunum. Tveir af þeim geta ekki spilað bæði með landsliði og félagsliði, það er bara augljóst með Jóa og Alfreð svo við tölum hreina íslensku með það. Það styttist í það hjá Gylfa ef hann ætlar að vera á svona háu leveli," segir Þorlákur.

Hann nefnir að ástæða þess að meiri endurnýjun hafi ekki orðið á liðinu sé meðal annars sú að enginn hafi náð að skáka þeim sem fyrir eru.

„Það er kannski þreytt að tala um að gamla bandið eigi áskrift að landsliðinu en svo er það þannig að það þarf að slá menn út. Eins og með Hannes þá er maður búinn að vera að bíða eftir því að Ömmi eða Rúnar Alex séu að fara að slá hann út en það er kannski ekki að fara að gerast. Sama með Birki Má, er einhver betri en hann? Það hefur ekki komið í ljós."

„Auðvitað verður engin framþróun á liðinu ef aukaleikararnir, þeir sem eru á bekknum eða rétt komast í hóp, eru líka 32-35 ára. Þá ertu auðvitað að stoppa framþróun fótboltans, ef aukaleikararnir eru líka úr gamla bandinu."

Bjóst við breytingu á hugmyndafræði
Þorlákur segir að hann hefði búist við því að landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hefðu yngt meira upp í liðinu.

„Fyrir þessa keppni hefði ég yngt upp liðið í ákveðnum hlutföllum. Þú gerir það ekki á einu bretti. En á móti kemur að þú þarft að slá út leikmennina. Þetta er snúið, ég hefði yngt upp í liðinu en tek fram að það er ekkert rétt eða rangt í þessu," segir Þorlákur.

„Albert Guðmundsson er til dæmis leikmaður sem ég myndi láta spila alla leiki, ég myndi bara koma honum fyrir. Alfreð, Gylfi og Jói eru að spila í Þýskalandi og Englandi út af færni, þeir eru tæknilega ógeðslega góðir. Albert er frábær tæknilega séð og átt frábærar innkomur en eins og hann fái ekki almennilega traustið. Þá fara menn stundum að gera heimskulega hluti eins og að fá gul spjöld."

„Við höfum Andra Fannar sem er ofboðslega góður leikmaður og Ísak líka. Hann hefur verið að spila úti á væng, bæði með U21 og Norrköping, en í grunninn er hann miðjumaður og frábær leikstjórnandi. Það er kannski aðeins lengra í hann en þetta eru leikmenn sem hafa gæði sem koma leikmönnum eins og Alfreð, Gylfa og Jóa í bestu deildir í heimi."

„Jón Dagur getur alltaf haldið boltanum þegar sjálfstraustið er gott hjá honum. Hann er leikmaður sem þú getur sent á til að koma liðinu ofar og hvíla þig og svo framvegis. Það er leikmaður sem er á uppleið líka. Þegar þú ferð yfir leikmannahópinn eru flestir leikmennirnir á niðurleið."

„Þegar Arnar og Eiður Smári, sem voru með U21 landsliðið, tóku við þá hugsaði ég að það kæmi breyting á hugmyndafræði. Það hefur ekki verið málið," segir Þorlákur.

Hann kemur einnig inn á það að riðillinn sem við erum í sé talsvert veikari en þeir sem við höfum verið í síðustu undankeppnir. Það gæti spilað inn í að þjálfararnir haldi áfram að treysta á 'gamla bandið' eins og það kallast. „Hann er þannig að þú sem þjálfari hugsar: Við eigum möguleika á því að fara á HM," segir Þorlákur Árnason.
Útvarpsþátturinn - Láki um landsliðið, Addi Grétars og Birkir Már
Athugasemdir
banner