sun 06. júní 2021 12:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar Alex: Töluvert sterkari eftir þetta tímabil
Rúnar Alex í leik með Arsenal.
Rúnar Alex í leik með Arsenal.
Mynd: Getty Images
Bernd Leno og Rúnar.
Bernd Leno og Rúnar.
Mynd: Getty Images
Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson var á blaðamannafundi í dag þar sem hann ræddi um veru sína hjá enska stórliðinu Arsenal.

Rúnar Alex gekk í raðir Arsenal fyrir síðustu leiktíð og var hann varamarkvörður liðsins fyrri hluta leiktíðarinnar. Hann spilaði sex keppnisleiki; einn í ensku úrvalsdeildinni, einn í deildabikar og fjóra í Evrópudeildinni. Eftir að Mat Ryan kom á láni frá Brighton í janúar, þá varð Rúnar þriðji markvörður liðsins.

„Fyrst og fremst var þetta lærdómsríkt. Það var mjög mikið af verkefnum sem maður þurfti að tækla. Ég er mjög stoltur að hafa fengið frumraun í úrvalsdeildinni, að hafa spilað í Evrópukeppni og í bikarnum. Auðvitað fullt af erfiðum köflum líka en fyrst og fremst lærdómsríkt," sagði Rúnar um tímabilið hjá Arsenal.

Það er stórt sviðsljós á Arsenal sem á fjölmarga stuðningsmenn um allan heim. Hvernig er að tækla erfiðu augnablikin?

„Það var krefjandi. Það er ekkert sem getur undirbúið þig fyrir það. Mér finnst ég heilsteyptur einstaklingur og það þarf mikið til að ég fari að ofhugsa hluti eða efast um sjálfan mig, en þetta var mjög erfitt. Að vera í svona stóru félagi, það er alltaf verið að fylgjast með og maður er mikið á milli tannana á fólki. Það fylgir rosalega mikil pressa og þetta hefur kennt mér mikið um sjálfan mig; ég er töluvert sterkari eftir þetta tímabil."

Rúnar segist hafa tekið framförum innan vallar sem utan vallar hjá Arsenal, en hann segist ekki vita hvort hann verði áfram hjá félaginu eða fari á láni á næstu leiktíð. Hann saknar þess að spila.

„Ég vissi alveg í hvaða stöðu ég væri að fara. Það var alltaf talað um samkeppni, að ég ætti að veita þeim sem voru fyrir samkeppni og þeir sem voru fyrir og myndu koma ættu að veita mér samkeppni. Sá sem væri að standa sig best myndi fá þau tækifæri sem hann ætti skilið. Ástæðan fyrir því að ég fékk þessa leiki í byrjun var sú að ég átti það skilið. Mér fannst ég spila vel fram að leiknum gegn Manchester City. Eins og gengur og gerist, þá eiga menn lélega leiki og ég þurfti að takast á við afleiðingar þess."

„Eins og staðan er núna, þá eru bara ég og Leno í aðalliðshópnum. Við sjáum hvað gerist á næsta tímabili, hvort ég fari á láni eða verði í því að hlutverki að vera varamarkvörður eða þriðji markvörður. Ég sakna þess að spila, ég viðurkenni það. Ég tek þessu bara eins og það kemur."
Athugasemdir
banner
banner