KA mistókst að koma sér í góða stöðu í baráttunni um efsta sætið í neðri hlutanum þegar liðið steinlá gegn KR á Akureyri í dag. Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 0 - 4 KR
„KR vann sanngjarnt fjögurra marka sigur. Við hefðum að sjálfsögðu getað skorað mörk, fáum einhver góð færi, klúðrum víti en þeir hefðu líka getað skorað meira. Í fyrsta skiptið í sumar finnst mér við ekki mæta með nógu gott hugarfar og grunngildin ekki í lagi. Ég fann það eftir það sem er búið að ganga á undanfarið með þrjá leiki á einni viku að menn gátu ekki gírað sig upp í það hugarfar sem þarf til að vinna fótboltaleiki," sagði Haddi.
Haddi gerði þrefalda breytingu í hálfleik og það skilaði smá krafti í upphafi seinni hálfleiks.
„Erum flottir í byrjun seinni hálfleiks en svo kemur þriðja markið þá deyr þetta hjá okkur. Við þurfum að muna þessa tilfinningu, það eru tveir leikir eftir, þetta er ekki gaman og ekki það sem við viljum sýna okkar áhorfendum. Mér er alveg sama þótt það sé eitthvað eðlilegt að hugarfarið fari aðeins niður eftir svona viku þá er kærkomið frí núna svo mætum við með alvöru hugarfar í síðustu tvo leikina," sagði Haddi.
„Við viljum ná sjöunda sætinu og nú erum við að leyfa yngri mönnum og þeim sem hafa fengið minni spiltíma að koma inn. Maður vill líka að þeir fái sanngjarnan séns og komi inn í lið sem leggur sig fram. Þessi tilfinniing er ekki góð og við þurfum að breyta því strax í næsta leik."