Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 07. september 2020 09:30
Magnús Már Einarsson
Guðlaugur Victor: Þessi endir var ógeðslegur
Icelandair
Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum á laugardaginn.
Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor þakkar Gareth Southgate landsliðsþjálfara Englendinga fyrir leikinn.
Guðlaugur Victor þakkar Gareth Southgate landsliðsþjálfara Englendinga fyrir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Vissulega var ég ánægður með frammstöðu mína en þetta eru blendnar tilfinningar," sagði Guðlaugur Victor Pálsson í viðtali í Harmageddon á X-inu í dag þar sem hann ræddi 1-0 tap Íslands gegn Englandi um helgina.

Guðlaugur Victor var frábær á miðjunni hjá Íslandi og var valinn maður leiksins. Englendingar fengu fá færi í leiknum en Raheem Sterling skoraði eina markið úr vítaspyrnu undir lok leiks.

„Þessi endir var ógeðslegur. Þetta var eitt erfiðasta tap sem ég hef upplifað. Þetta var á móti Englandi og við vorum búnir að verjast þeim ótrúlega vel sem lið. Þeir áttu rosalega lítið af færum og við vorum í andlitinu á þeim í 89 mínútur þangað til að þeir fá þetta víti sem er fyrir mér mjög rangur dómur."

Vítaspyrnan var dæmd eftir að Sverrir Ingi Ingason fékk boltann í höndina.

„Ég er búinn að spila fótbolta í mörg ár og ég átta mig ekki ennþá á því hvaða reglur eru. Það er alltaf sagt að það sé pjúra hendi ef þú gerir líkamann stærri en þarna er Sverir með olnbogann upp við líkamann og er ekki að gera sig stærri. Þetta er ekki víti og þetta er fáránlegur dómur."

Ísland vann England eftirminnilega árið 2016 og litlu munaði að jafntefli yrði niðurstaðan um helgina.

„Maður sá að þessi leikur 2016 situr í þeim og þeir voru orðnir ógeðslega pirraðir inn á vellinum. Þetta var grátlegt og það var erfitt að kyngja þessu. Nú er þetta fortíðin og maður þarf að einbeita sér að leiknum á morgun," sagði Guðlaugur Victor en nokkrir nýir leikmenn fengu tækifæri á laugardaginn.

„Við erum með rosalega marga unga og efnilega stráka sem eru að koma upp og það er mjög jákvætt. Þeir hafa sýnt það á æfingum og þeir eru að gefa þjálfurunum ákveðinn hausverk. Þessir strákar stóðu sig mjög vel í æfingavikunni og það er ekkert grín að koma inn og spila á móti Englandi sem er eitt besta landslið í heimi. Það er mjög bjart framundan hjá íslenska landsliðinu."

Íslenska liðið fór í gær til Brussel þar sem liðið mætir Belgum í Þjóðadeildinni annað kvöld.

„Þeir eru með heimsklassa leikmenn og spila öðruvísi kerfi. Þeir eru númer 1 eða 2 á FIFA listanum. Ég held að uppleggið okkar verði svipað á morgun. Ef við náum að gera sömu varnarfærslur og sömu vinnusemi þá munu þeir eiga í erfiðleikum með okkur. Við erum mótíveraðir í að ná sömu frammistöðu gegn Belgunum. Ef við náum sömu grimmd þá er ég viss um að við náum góðum úrslitum," sagði Guðlaugur Victor við Harmageddon á X-inu.
Athugasemdir
banner
banner