Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 07. desember 2021 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Arnar er brjálaður, við þurfum að aðstoða hann"
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar hefur stýrt landsliðinu í eitt ár.
Arnar hefur stýrt landsliðinu í eitt ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla, var mjög ósáttur við þá ákvörðun KSÍ að útiloka Kolbein Sigþórsson frá landsliðshópnum síðasta vor.

Kolbeinn var tekinn úr hópnum eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og sagði frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni af hálfu hans á skemmtistaðnum B5 árið 2017.

Þórhildur steig fram eftir að KSÍ neitaði því að ábendingar eða tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi hefði borist á borð sambandsins.

Úttektarnefnd ÍSÍ hefur nú lokið störfum en hún var sett saman til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. Í kjölfarið var gefin út löng skýrsla þar sem mikið er um upplýsingar.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Arnar hafi verið „brjálaður" yfir ákvörðuninni að útiloka Kolbein frá hópnum. Þetta var yfirskrift tölvupósts innan stjórnarhóps KSÍ.

Úr skýrslunni:
Af tölvupóstsamskiptum stjórnarfólks þennan dag má ráða að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla, var ekki alls kostar sáttur með að stjórn hefði tilkynnt að B væri útilokaður frá landsliðinu í komandi leikjum. Þennan dag var sendur innan stjórnarhópsins tölvupóstur með efnisheitinu „SOS Arnar er brjálaður, við þurfum að aðstoða hann“. Í þeim samskiptum kemur m.a. fram að varaformenn KSÍ, Borghildur Sigurðardóttir og Gísli Gíslason, hafi síðar um kvöldið átt fund með Arnari Þór og Eiði Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara A-landsliðsins, þar sem gleymst hafi „að fara yfir næstu skref með landsliðsþjálfurunum og hvernig [eigi] að tækla framhaldið með landsliðið“.

Í viðtölum við úttektarnefndina kom fram að varaformenn KSÍ hefðu greint Arnari frá þeirri skoðun sinni að ef B yrði valinn í landsliðshópinn þá yrði farsi í kringum næstu þrjá heimaleiki liðsins. Gísli Gíslason, annar varaformanna KSÍ, lýsti því t.d. í viðtali við nefndina að fólk hefði komið inn á skrifstofur KSÍ og sýnt þar ógnandi hegðun og að starfsfólk KSÍ hefði auk þess fengið ljóta tölvupósta.

Þá þarf að finna einhvern annan þjálfara
Arnar talaði um það í september að það þyrfti að mynda ákveðinn ramma um hvað þyrfti að gerast svo að leikmaður gæti ekki verið valinn í landsliðið. Staðan var óskýr á þeim tíma.

„Eina sem ég get sagt - og það hefur ekki með nein mál að gera - er að fyrir íþróttirnar í heild og samfélagið að það verður að vera rammi um það hvað þarf að gerast áður en það er ekki í boði fyrir þjálfara að velja ákveðna leikmenn. Sá rammi þarf að vera skýr, hvort sem það er kæra til lögreglu eða hvað, ég hef ekki vit á því. Þessi rammi þarf að vera klár."

„Það er ómögulegt fyrir okkur sem þjálfara að vinna okkar starf ef við þurfum að hringja inn nöfn til stjórnar eða í hvern sem er og fá leyfi til að velja fólk. Þá get ég ekki unnið starfið mitt. Ef ég get ekki unnið starfið mitt eins og ég vil vinna það, þá þarf að finna einhvern annan þjálfara."

„Það þarf að gera þetta fljótt. Þessi rammi þarf að vera klár eins fljótt og hægt er. Við þurfum að geta unnið eftir einhverjum ramma. Þetta er fyrir ÍSÍ eða jafnvel stjórnmálamenn í landinu."

Hægt er að skoða skýrsluna í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner