Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
banner
   þri 09. júlí 2024 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
EM spáin - Rokk og ról frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu
Kylian Mbappe, helsta stjarna Frakka.
Kylian Mbappe, helsta stjarna Frakka.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gunni Birgis og Jói Ástvalds spá í leikina.
Gunni Birgis og Jói Ástvalds spá í leikina.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stuð í Spánverjum.
Stuð í Spánverjum.
Mynd: Getty Images
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka.
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka.
Mynd: EPA
Undanúrslitin á Evrópumótinu í Þýskalandi hefjast í kvöld. Það eru tveir sannkallaðir stórleikir framundan.

Spámenn Fótbolta.net eru Gunnar Birgisson og Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamenn á RÚV, en þeir hafa báðir verið frábærir í umfjöllun í kringum mótið. Þeir spá um úrslit allra leikja í útsláttarkeppninni ásamt fulltrúa Fótbolta.net. Fyrir hárréttar lokatölur fást 3 stig en 1 stig ef rétt tákn er á leiknum.

Gunnar Birgisson

Spánn 3 - 2 Frakkland
Loksins fáum við að sjá leiftrandi og óheftan sóknarleik af hálfu beggja liða í þessari útsláttarkeppni og þetta verður rokk og ról frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Spánverjarnir eru bara alltof góðir þessa dagana og virka eins og lið sem getur unnið þetta mót. Úrslitavélin sem þetta franska lið er hikstar enda þeirra næst besti maður, Kylian Mbappé, ekki 100% heill.

Jóhann Páll Ástvaldsson

Spánn 0 - 1 Frakkland
Deschamps tekst að læsa leiknum kyrfilega. Grímukommentið frá de la Fuentes kveikir eld undir Mbappé. Það sem einna helst talar fyrir því að Kyli Kyli muni eiga sinn fyrsta góða leik á mótinu er að Jesús Navas verður mættur í hægri bak með sín fallegu augu.

Mbappé skorar eitt og Frakkar þurfa bara eitt. Endar 1-0 í venjulegum leiktíma. Spánverjar banka þó en stöngin bjargar Maignan í eitt skipti.

Við skulum vona að Deschamps fari svo að kalla þetta gott eftir mótið. Árangur hans og Southgate á stórmótum er að fara að valda ómældum skaða næstu áratugina ef fram heldur sem horfir.

Fótbolti.net - Sverrir Örn Einarsson

Spánn 2 - 0 Frakkland
Deschamps byrjar daginn á því að tilkynna Mbappé að hann byrji á bekknum í kvöld sem fer mjög illa í stjörnuna sem fer í fýlu. Hann er reyndar búinn að vera hálf fúll allt mótið eftir að hafa nefbrotnað þrátt fyrir spá mína um að hann myndi verða bestur í mótinu. Spánverjar telja í og halda boltanum fyrsta hálftíma leiksins eða svo án þess að skapa sér færi og láta boltann rúlla kanta á milli og þreyta vörn Frakka eins og laxveiðimaður þreytir lax. Eftir þennan hálftíma fer þeim þó að leiðast og tekur Nico Williams til sinna mála og spænir sig upp vænginn alveg inn í markteig þar sem hann mun leggja boltann fyrir markið á Lamine Yamal sem potar honum inn af 30 sentimetra færi eða svo og staðan 1-0 í hálfleik.

Frakkar munu rembast eins og rjúpa við staurinn í síðari hálfleik þar sem Mbappé mun hlaupa og hlaupa og hlaupa svo aðeins meira með boltann án þess að skapa nokkra hættu í teig Spánverja. Deschamps fer að örvænta og hendir Giroud inn á eftir um 75 mínútna leik og fær hann færi strax í fyrstu sókn og skalla í stöng. Frakkar munu dæla boltum inn á teiginn það sem eftir er en munu ekki ná að koma boltanum í netið. Þess í stað bruna Spánverjar upp í skyndisókn í blálokin þar sem boltinn berst á Dani Olmo sem mun tryggja þeim 2-0 sigur og sæti í úrslitum.

Staðan:
Gunni Birgis - 11 stig
Fótbolti.net - 7 stig
Jói Ástvalds - 7 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner