
Powerade lestin er pakkfull af slúðri enda janúarglugginn galopinn. Weghorst, Fernandez, Felix, Thuram, Trossard, Busquets og fleiri koma við sögu.
Hollenski sóknarmaðurinn Wout Weghorst (30), sem er hjá Besiktas á láni frá Burnley, hefur boðist til að borga sárabótagreiðslu til tyrkneska félagsins úr eigin vasa til að ýta í gegn skiptum til Manchester United. Málin gætu skýrst í dag. (Gokhan Dinc)
Paul Parker, fyrrum leikmaður Manchester United, segir tímabært að United geri Bruno Fernandes formlega að fyrirliða í stað Harry Maguire. Bruno hefur oftar verið með bandið en Maguire á þessu tímabili þar sem enski varnarmaðurinn er oft á bekknum. (Mirror)
Roger Schmidt, stjóri Benfica, segir að Chelsea sé hætt að vinna í að fá Enzo Fernandez (21) og leikmaðurinn fari ekki í janúarglugganum. (Mirror)
Atletico Madrid vill að Joao Felix (23) framlengi samning sinn um eitt ár, til ársins 2027, áður en hann verður lánaður til Chelsea út tímabilið. (Marca)
Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Marcus Thuram (25), franska framherjann hjá Borussia Mönchengladbach. Samningur hans rennur út í sumar og þeir bláu hafa einnig áhuga á enska U21 landsliðssóknarmanninum Noni Madueke (20) hjá PSV Eindhoven. (Times)
Argentínski miðjumaðurinn Carlos Alcaraz (20) fer í læknisskoðun hjá Southampton, botnliði ensku úrvalsdeildarinnar, í dag. Félagið hefur komist að samkomulagi við Racing Club um 12,3 milljóna punda kaupverð. (Mail)
Brighton hefur hafnað munnlegu tilboði Tottenham í belgíska sóknarleikmanninn Leandro Trossard (28). Brighton hefur ekki í hyggju að selja Trossard í janúar. (Football Insider)
West Ham United hefur endurnýjað áhuga sinn á Youssef En-Nesyri (25), sóknarmanni Sevilla. Félagið vonast til að fá marokkóska landsliðsmanninn lánaðan út tímabilið. (Times)
Leeds United er komið vel á veg í viðræðum um franska framherjann Georginio Rutter (20) sem gæti verið keyptur fyrir 35 milljónir punda frá Hoffenheim í Þýskalandi en það yrði félagsmet. (Sky Sports)
Leeds United mun hleypa enska framherjanum Joe Gelhardt (20) á lán í janúar. Honum hefur verið tjáð að hann sé ekki í plönum Jesse Marsch út tímabilið. (Football Insider)
Nottingham Forest er í viðræðum um kaup á brasilíska miðjumanninum Danilo (21) frá Palmeiras fyrir 18 milljónir punda en upphæðin gæti hækkað eftir ákveðnum ákvæðum. (Mail)
Sádi-arabíska félagið Al-Nassr, sem Ronaldo er hjá, vill fá spænska miðjumanninn Sergio Busquets (34) en samningur hans við Barcelona rennur út í sumar. (ESPN)
Athugasemdir