„Við vorum allar til í þennan leik. Við lendum 1-0 undir enn ég fann það samt á okkur að við vorum aldrei að fara tapa þessum leik," segir Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir, leikmaður Aftureldingar, en hún var besti leikmaður 2. umferðar Mjólkurbikars kvenna að mati Fótbolta.net.
Afturelding vann 1-2 sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum en Þorbjörg Jóna leysti það frábærlega að spila í vörninni gegn Olgu Sevcovu, sem er líklega leikmaður Lengjudeildarinnar.
Afturelding vann 1-2 sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum en Þorbjörg Jóna leysti það frábærlega að spila í vörninni gegn Olgu Sevcovu, sem er líklega leikmaður Lengjudeildarinnar.
„Ég svo sem pældi ekkert mikið í henni, ég bara einbeitti mér mest að spila minn leik og gera það sem ég er góð í," segir Þorbjörg Jóna um baráttu sína við Olgu.
Afturelding mætir ríkjandi bikarmeisturum Víkings í 16-liða úrslitunum og verður það mjög svo áhugaverð viðureign.
„Það leggst bara mjög vel í mig og liðið. Gaman að mæta bikarmeisturunum, þetta verður alvöru leikur."
Frá Vopnafirði í Mosfellsbæ
Þorbjörg Jóna hefur spilað lengst af á sínum ferli á Vopnafirði með Einherja, en hún er núna á leið inn í sitt annað tímabil með Aftureldingu.
„Mér líður rosalega vel hérna í Mosó og er mjög spennt fyrir sumrinu," segir hún.
„Það er smá öðruvísi (að vera á Vopnafirði) en hérna í bænum. Aðstaðan hefur ekki alltaf verið sú besta enn gerðum alltaf gott úr því; æfðum mest innanhús í íþróttasal og svo vorum við á einhverjum tímapunkti með klefa í gámum en það var bara alvöru sveitafílingur. Það sem er sennilega mest eftirminnilegt er bara þegar við stofnuðum aftur lið í meistaraflokki kvenna hjá Einherja 2015; mikil stemning í kringum það þótt að margar í liðinu hefðu aldrei spilað 11 manna bolta áður."
Það hefur gengið vel hjá Aftureldingu í vetur og í byrjun sumars, en liðinu er spáð efsta sæti Lengjudeildarinnar.
„Það er mjög góð stemning í liðinu. Hópurinn sem við erum með er rosalega góður og andinn í liðinu líka. Þjálfararnir eru upp á tíu og fólkið sem kemur að liðinu líka. Við erum búin að setja okkur markmið fyrir sumarið sem lið og við erum allar með þau á hreinu og til í þetta sumar," sagði Þorbjörg Jóna að lokum.
Athugasemdir