Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   mið 10. október 2018 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Best í 2. deild: Ævintýrakona sem lætur veikindi ekki stoppa sig
Murielle í leik með Tindastól í sumar
Murielle í leik með Tindastól í sumar
Mynd: Óli Arnar - Feykir.is
Mynd: Tindastóll
Mynd: Aðsend - Murielle Tiernan
Bandaríkjakonan Murielle Tiernan vakti mikla og verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Tindastól í 2. deild kvenna í sumar. Að tímabilinu loknu var Murielle valin besti leikmaður deildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar auk þess sem hún varð markahæst en hún skoraði 24 mörk í 14 leikjum.

Það sem gerir afrek Murielle enn magnaðri er að hún er greind með cystic fibrosis, eða slímseigjusjúkdóm, sem er ólæknandi erfðasjúkdómur. Hann hefur vissulega haft mikil áhrif á íþróttaiðkun hennar en Murielle hefur náð að halda neikvæðum einkennum hans í skefjun og lætur hann ekki stoppa sig. Hvorki í að spila fótbolta eða ferðast um heiminn. Fótbolti.net heyrði í þessari mögnuðu íþróttakonu eftir tímabilið en hún er farin af landi brott og er um þessa stundina að ferðast um Evrópu ásamt vinkonu sinni.

„Ég spilaði bæði fótbolta og körfubolta frá fjögurra ára aldri en féll strax fyrir fótboltanum og tók hann fram yfir á menntaskólaárunum. Ég hélt þó áfram að spila körfubolta þangað til ég fór í háskóla haustið 2013. Mér fannst gott að hafa tvær íþróttir til að einbeita mér að þegar ég var yngri svo ég yrði ekki þreytt á annarri hvorri," segir Murielle sem segist ekki vera týpan sem skipuleggur allt í bak og fyrir. Þess vegna hafi hún ekki verið búin að velta því mikið fyrir sér hvað hún ætlaði að gera við fótboltann þegar hún eltist. Hún leit aldrei svo á að sjúkdómurinn myndi stoppa hana.

„Ég spilaði bara mér til gamans þegar ég var yngri en þegar ég áttaði mig á þeim möguleikum sem boltinn gat gefið mér, til dæmis með háskólamenntun og ferðalögum þá ákvað ég að nýta þá."

Vildi nýta boltann til að ferðast um heiminn

„Eftir að ég kláraði háskólann ákvað ég að ég vildi ekki gerast atvinnukona í Bandaríkjunum heldur sjá hvort að fótboltinn gæti ekki opnað á tækifæri á nýjum stöðum sem ég ætti annars ekki kost á að heimsækja eða búa á. Ég fór því að skoða ýmsa kosti erlendis og byrjaði á að fara til Svíþjóðar," sagði Murielle en hún var á mála hjá Hammarby áður en hún kom til Íslands.

„Ég spilaði þar eitt tímabil og naut þess að búa í Stokkhólmi í 4 mánuði. Ég ákvað svo að færa mig um set fyrir næsta tímabil og spreyta mig í nýju umhverfi, upplifa aðra menningu."

Murielle bauðst þá að koma til Íslands en hún vissi lítið um íslenskan fótbolta.

„Vinkona mín, Sam Lofton, spilaði með Breiðablik í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili svo ég hafði séð myndir og efni um Ísland frá henni á samfélagsmiðlum. Ég vissi samt ekkert um 2. deildina eða Sauðárkrók."

„Það er án efa lang minnsti bær sem ég hef eytt meira en einni nóttu í en sem dæmi var menntaskólinn minn álíka fjölmennur og bæjarfélagið. Á sama tíma og þetta var minnsti staður sem ég hef búið á er Sauðárkrókur líka fallegasti staður sem ég hef búið á. Ég elska að rölta niður hæðina og horfa yfir fjörðinn og fjöllin. Það er útsýni sem maður þreytist ekki á!"


Sveitaloftið virðist hafa haft góð áhrif á Murielle en eins og áður kom fram fór hún á kostum í sumar og var verðskuldað valin best í 2. deild. Fyrirfram hafði Murielle þó stillt væntingum sínum í hóf.

„Ég reyni að gera mér ekki of miklar væntingar áður en ég fer inn í nýjar aðstæður. Það getur verið nógu erfitt að skipta um lið og venjast því að spila með nýjum liðsfélögum. Ég tala nú ekki um þegar þú skilur varla neitt sem er verið að segja í kringum þig. Markmiðið var aðallega að leggja mitt af mörkum til að hjálpa liðinu," sagði knattspyrnukonan um sumarið fyrir norðan og var hógvær þegar hún var spurð út í persónulegan árangur sinn. Næsta skrif á ferlinum er óráðið en það blundar greinilega mikil ferðabaktería í Murielle sem er opin fyrir áframhaldandi ævintýrum.

Óvíst hvað tekur við

„Ég er ekki búin að ákveða hvað ég geri næst. Markmiðið með því að halda áfram að spila eftir háskólann var að ferðast og skoða heiminn. Að því sögðu mun ég skoða hvaða tækifæri munu bjóðast á spennandi stöðum. Mér leið vel á Íslandi og er alveg opin fyrir því að koma hingað aftur ef aðstæður leyfa."

„Ég hef ekki sett mér nein langtímamarkmið í íþróttinni. Eins og er spila ég til að halda mér heilbrigðri og ferðast um heiminn. Þegar mér finnst ég vera komin með nóg af því að dvelja erlendis mun ég setja takkaskónna á hilluna, fara aftur til Bandaríkjanna og hefja næsta kafla í lífinu."


Sjúkdómurinn erfiðar knattspyrnuiðkun en hreyfingin er besta meðferðin gegn honum

Það er ekki hægt að komast hjá því að spyrja Murielle út í erfðasjúkdóminn cystic fibrosis sem er ólæknandi og mun því fylgja henni alla tíð. Á heimasíðu Andartaks, íslensku cystic fibrosis samtakanna, kemur fram að áhrif sjúkdómsins geti verið mismundandi eftir því hvaða líffæri hann leggst á. Helstu líffæri sem verða fyrir áhrifum hans eru öndunarfæri, meltingarfæri, bris og svitakirtlar. Þá kemur fram að öndurfærasjúkdómar eru oft alvarlegasti hluti CF og það þekkir Murielle.

„Þegar þú ert með sjúkdóm eins og cystic fibrosis þá fæðistu með hann og þekkir ekkert annað. Þegar ég var lítil hélt ég það góðri heilsu að mér leið eins og venjulegum krakka og vissi í raun ekki hvað CF þýddi eða hvað fólst í sjúkdómnum. Með aldrinum urðu fótboltaæfingar erfiðari og ákefðin hærri og þá fór ég að finna fyrir bakslögum af völdum sjúkdómsins. Það er til dæmis erfitt fyrir mig að spila í miklum hita, vökvatapið er mikið og hratt, og það tekur mig yfirleitt lengur en aðra að endurheimta þá orku sem fer í íþróttina. Það reynist mér einnig erfitt að anda í hærri hita."

„Það eina sem ég get gert varðandi sjúkdóminn er að reyna að halda neikvæðum einkennum hans niðri og geri mitt besta í því. Þó að íþróttir á þessu stigi séu erfiðari fyrir mig útaf sjúkdómnum þá eru þær líka besta meðferðin gegn honum því að öll líkamleg virkni sem reynir á og styrkir lungun er til góða."


Sjálf þekkir Murielle ekki til annarra leikmanna með sjúkdóminn sem hafa spilað í atvinnumennsku eða háskóladeildum Bandaríkjanna en með vaxandi þekkingu undanfarna áratugi hafa batahorfur og lífsgæði sjúklinga aukist.

Það verður gaman að fylgjast með næsta skrefi á ferlinum hjá þessum öfluga leikmanni og ævintýrakonu. Hvort það verði með Tindastóli í Inkasso-deildinni næsta sumar eða í annarri heimsálfu verður tíminn einn að leiða í ljós.

Á heimasíðu Andartaks, íslensku cystic fibrosis samtakanna, er hægt að fræðast nánar um sjúkdóminn.
Athugasemdir
banner