Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   mið 11. nóvember 2020 16:11
Örvar Arnarsson
Búdapest
Aron: Horfi ekki á þetta sem síðasta dansinn
Icelandair
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þriðja stórmótið í röð?
Þriðja stórmótið í röð?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég horfi ekki á þetta sem síðasta dansinn. Það myndi setja of mikla pressu á okkur. Við erum meira að hugsa um það hversu mikið afrek það yrði að ná þriðja stórmótinu í röð," sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, á fréttamannafundi í dag fyrir stórleikinn gegn Ungverjum á morgun.

Ungverskur fréttamaður spurði að því hvort að margir leikmenn úr íslensku „gullkynslóðinni" muni hætta ef að Ísland fer ekki á EM.

„Við erum langt frá því að vera hættir. Við höfum afrekað frábæra hluti með því að komast tvisvar á stórmót í röð. Það væri frábært afrek að ná því þrisvar í röð. Það veltur líka á okkur að gefa ungu leikmönnunum reynslu og hjálpa þeim að taka við, hvenær sem það verður."

Íslenska landsliðið hefur spilað marga stóra leiki undanfarin ár og Aron segir að sú reynsla geti hjálpað á morgun.

„Við höfum reynslu úr svona stórum leikjum. Úr umspili og leikjum sem hafa tryggt okkur sæti á EM og HM. Það er alltaf smá stress í svona leikjum. Þú vilt spila í svona stórum leikjum. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa reynsluna frá þessum leikjum og það að hafa gert þetta áður mun vonandi hjálpa okkur á morgun. Ungverja þyrstir í árangur og þeir vilja þetta jafn mikið og við. Við verðum að koma þessu yfir línuna og reyna að gera eins fá mistök og hægt er. Það er yfirleitt þannig í svona leikjum að það lið sem gerir færri mistök vinnur.">/I>

Aron var einnig spurður út í 1-1 jafnteflið gegn Ungverjum á EM árið 2016.

„Keppnin árið 2016 var frábær reynsla fyrir okkur. Þetta var erfiður leikur gegn sterku ungversku lið. Við þurftum að verjast mikið. Þeir héldu boltanum vel og gerðu erfitt fyrir okkur að ná takti í leiknum. Þeir skoruðu jöfnunarmark í lokin og við gerðum jafntefli. EM 2016 var frábær reynsla fyrir okkur, að komast svona langt í keppninni. Við viljum gera það sama aftur. Það er mikilvægt að vinna leikinn á morgun en við vitum að það verður erfitt."

Íslenska liðið æfði í Augsburg í Þýskalandi fyrir leikinn. Alfreð Finnbogason, framherji landsliðsins, spilar með Augsburg.

„Undirbúningurinn var mjög góður. Alfreð og KSÍ skipulögðu þetta vel. Við komum hingað í dag og hótelið hér er líka gott. Við erum vel undirbúnir. Við höfum átt góðar æfingar og góða fundi. Við höfum undirbúið okkur vel og núna þurfum við að láta verkin tala inni á vellinum," sagði Aron.
Athugasemdir
banner
banner
banner