Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
   mán 12. ágúst 2024 14:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Adam Páls: Ég trúi þessu ekki í raun og veru
Daniele Montevago og Adam eftir leikinn í gær.
Daniele Montevago og Adam eftir leikinn í gær.
Mynd: Perugia
Adam gekk í raðir Perugia í síðasta mánuði.
Adam gekk í raðir Perugia í síðasta mánuði.
Mynd: Perugia
Fær að upplifa drauminn á Ítalíu.
Fær að upplifa drauminn á Ítalíu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Skoraði þrennu í fyrsta leik.
Skoraði þrennu í fyrsta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er þakklátur að þetta hafi gerst fyrir mig'
'Ég er þakklátur að þetta hafi gerst fyrir mig'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ætlar sér að skora tíu mörk í deildinni í vetur.
Ætlar sér að skora tíu mörk í deildinni í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Þetta var sturluð upplifun," segir Adam Ægir Pálsson í samtali við Fótbolta.net.

Í gær spilaði hann sinn fyrsta keppnisleik með ítalska félaginu Perugia. Adam stimplaði sig heldur betur inn þar sem hann skoraði þrennu og lagði upp eitt í 4-1 sigri gegn Latina í ítalska C-deildabikarnum.

„Ég trúi þessu ekki í raun og veru. Fyrri hálfleikurinn var mjög lokaður og við vorum bara 1-0 yfir í hálfleik. Leikirnir á Ítalíu eru yfirleitt frekar lokaðir til að byrja með, mjög taktískir. Daniele Montevago skoraði, striker sem kom frá Sampdoria fyrir stuttu. Pirlo gat ekki notað hann og við fengum hann. Þetta opnaðist aðeins meira í seinni hálfleik þegar þeir ætluðu að sækja mark. Ég skoraði þá óvænt með skalla, en það er ekki vaninn hjá mér. Ég held að þetta sé fyrsta skallamarkið mitt á ævinni. Ég tek þessu frekar en marki af 30 metrunum," sagði Adam.

„Það var mikill léttir eftir þetta mark. Maður vill alltaf byrja tímabilið vel og eftir að ég skoraði fyrsta markið var ég léttari á mér. Leikurinn opnaðist enn meira eftir annað markið. Ég fékk svo þokkalega gefins mark og maður var í þannig gír í gær að ég fékk færi til að klára þrennuna og ég gerði það. Þetta var ógeðslega gaman."

„Það er ekki leiðinlegt að byrja atvinnumennskuna á þrennu, ég viðurkenni það," segir Adam Ægir glaður.

Þetta er bara magnað
Adam gekk í raðir Perugia á láni frá Val í síðasta mánuði. Ítalska félagið er svo með forkaupsrétt á honum. Adam hefur dreymt um atvinnumennsku í langan tíma og að byrja hana svona, það er frábært.

„Þetta er bara magnað. Ég er búinn að vinna mér inn fyrir þessu. Ég hef lagt gríðarlega hart að mér í mörg ár og maður vinnur sér inn fyrir svona dæmi. Auðvitað þarf maður að vera heppinn líka. Þetta var lokaður leikur en ég fékk góð færi og kláraði þau. En maður verður líka að vinna sér inn fyrir heppninni. Núna er ég að uppskera eftir að hafa æft mikið og fyrir að hafa ekki gefist upp. Þetta er gríðarlega gott fyrir andlegu hliðina líka; ég þurfti á þessu að halda," segir Adam.

„Þetta hefur verið draumur hjá mér í langan tíma. Þeir höfðu áhuga á mér fyrir ári síðan og þá varð það ekki að raunveruleika. Núna fór þetta í gegn. Það var alltaf sagt við mig að þetta myndi gerast þegar maður ætti síst von á því. Þegar maður býst ekki við því þá gerast stundum óvæntir hlutir. Valur leyfði mér að fara og ég er kominn í mjög gott lið. Við vorum að fá leikmann á láni frá Inter sem er fáránlega efnilegur. Þetta er hátt 'level' og menn gera sér kannski ekki grein fyrir því. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir því að fá tækifæri á þessu sviði. Ég hef unnið að þessu í mörg ár og það er ekkert eðlilega gaman að byrja á þrennu."

Þeir eru ekkert að grínast
Perugia er í ítölsku C-deildinni, endaði ofarlega þar í fyrra og fór í umspilið um sæti í B-deildinni. Þetta er samt sem áður stórt félag með sterkan stuðningsmannakjarna. Félagið var í efstu deild síðast 2004 og leikur á heimavelli sem tekur tæplega 25 þúsund manns í sæti.

„Þetta er risa félag með risa stuðningsmannahóp. Maður finnur fyrir því að stuðningsmennirnir deyja fyrir félagið. Þeir eru ekkert að grínast, alvöru ástríða," segir Adam en viðbrögðin eftir leikinn í gær hafa verið mikil.

„Ég er búinn að fá 300-400 nýja fylgjendur á Instagram og svona 250 skilaboð. Þetta hefur verið sturlað. Ég fékk frían hádegismat í dag. Þegar maður stendur sig vel hérna, þá er komið vel fram við mann."

„Ég fékk carbonara á veitingastað sem við förum oft á strákarnir. Þegar þú stendur þig hér, þá færðu það til baka. Maður var búinn að heyra af því í gegnum Albert (Guðmundsson, leikmann Genoa) að ef maður stendur sig vel á Ítalíu, þá er maður í guðatölu. Maður er einhvern veginn að finna smjörþefinn af því. Vonandi heldur það áfram."

Margar freistingar í kringum lífið á Íslandi
Adam er byrjaður að venjast lífinu á Ítalíu. Hann segir að það hafi verið gott fyrir sig að komast í þetta umhverfi.

„Þetta var mjög gott og jákvætt fyrir mig að koma hingað. Á Íslandi var maður kominn í svolítið mikið af öðru dæmi. Ég var í útvarpinu og hinu og þessu. Það eru margar freistingar í kringum lífið á Íslandi. Það er mikið hægt að gera," segir Adam.

„Það eru ákveðin þægindi í því að vera hérna úti og geta ekki hugsað um neitt annað en fótbolta. Það er að koma til mín að vera einn með sjálfum mér og hugsa um sjálfan mig. Það er gott fyrir mann. Ég er með íbúð og bíl og er að koma mér inn í lífið hérna. Það er æðislegt að búa í 35 gráðum, spila á 25 þúsund manna velli og spila á háu stigi. Ég er þakklátur að þetta hafi gerst fyrir mig."

Ertu byrjaður að töfra eitthvað í eldhúsinu?

„Ég er góður að gera egg og hafragraut. Gefðu mér mánuð eða tvo og þá verð ég byrjaður að gera gott pasta," segir Adam léttur en hvernig gengur með ítölskuna?

„Ég tala spænsku reiprennandi og þetta er ekki mjög ólíkt. Ég skil mikið en ég er ekki farinn að tala mikið. Markmiðið er að ná þessu á næstu mánuðum. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að læra ítölsku því það eru ekki margir hérna sem tala ensku. Maður verður að vera fljótur að læra. Það er krefjandi en gott."

„Maður skilur mjög hratt. Ég er gleðigosi og ég er fljótur að pikka upp einhverja brandara. Maður þarf að stimpla sig almennilega inn þegar maður kemur hérna út. Maður má ekki vera bara einhver útlendingur út í horni. Maður þarf að sýna að maður sé mættur."

Ætlar ekki að ofhugsa
Adam ætlar að njóta þess að spila fótbolta með Perugia, sleppa því að ofhugsa.

„Það er erfitt að setja markmið þegar ég veit ekki alveg hvað ég er að fara út í. En eins og ég var að segja við besta vin minn í gær þá er það jákvætt að vita ekki hvað maður er að fara út í. Ég er þekktur fyrir að ofhugsa en ég er bara að spila fótbolta til að njóta núna," segir Adam og bætti við að lokum:

„Það eru ákveðin þægindi í því að vita ekki að maður sé að fara að spila á móti Höskuldi Gunnlaugssyni eða Davíð Atla og hugsa út í alls konar lítil atriði í þeirra leik, ofhugsa. Ég vonast til að skora tíu mörk í deildinni, það er fyrsta markmið, og reyna að komast upp í Serie B. Ég fer inn í hvern einasta leik til að skora og leggja upp. Það hefur sannast að þegar ég spila, þá annað hvort skora ég eða legg upp - svona oftast."

Hér fyrir neðan má sjá mörkin sem Adam skoraði í gær.


Athugasemdir
banner
banner
banner