Nýkrýndir Svíþjóðarmeistarar Mjällby hafa áhuga á því að fá Ísak Andra Sigurgeirsson, leikmann Norrköping, til félagsins í vetrarglugganum en þetta herma heimildir FotbollDirekt.
Ísak Andri féll niður í B-deildina með Norrköping í síðasta mánuði, en hann hafði unnið sér fast sæti í liðinu fyrir tímabilið. Hann kom til félagsins frá Stjörnunni fyrir tveimur árum.
Það er alveg ljóst að Norrköping mun missa marga sterka leikmenn á næstu mánuðum og gæti Ísak verið einn af þeim sem munu yfirgefa félagið.
Hann var orðaður við Hammarby í sumar og nú eru sænsku meistararnir komnir inn í myndina.
Fotboll Direkt segir að Mjällby, sem varð óvænt sænskur meistari í ár, hafi mikinn áhuga á Ísaki, en Hasse Larsson, yfirmaður íþróttamála hjá Mjällby, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fotboll Direkt hafði samband við hann.
Samkvæmt fréttinni hefur félagið verið í sambandi við umboðsmann Ísaks en hann er samningsbundinn umboðsmannaskrifstofunni Nordic Sky.
Ísak, sem er 22 ára gamall, kom að tíu mörkum í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Athugasemdir



