Piotr Zielinski, leikmaður Inter, sagði áhugaverða sögu frá því þegar Liverpool var nálægt því að kaupa leikmanninn.
Hann sagði frá því þegar Jurgen Klopp, þáverandi stjóri Liverpool, bauð honum heim til sín til að reyna sannfæra pólska miðjumanninn að ganga til liðs við enska félagið.
„Jurgen Klopp bauð mér heim til sín. Liverpool sendi einkaþotu til að ná í mig. Ég var í sjokki því þetta var í fyrsta sinn sem ég hef ferðast með þessum hætti. Þegar við lentum tókum við rútu til Klopp. Það var allt til alls þarna," sagði Zielinski.
„Samtalið var frábært. Klopp sagði að ég væri blanda af Fabregas og Gundogan. Ég skildi ekkert en umboðsmaðurinn minn talaði þýsku og þýddi allt fyrir mig. Þegar við vorum að fara fékk ég mynd af mér með honum."
Hann var á þessum tíma leikmaður Udinese en gekk til liðs við Inter á frjálsri sölu frá Napoli í sumar. Udinese var ekki tilbúið að samþykkja tilboð Liverpool upp á 18.5 milljónir evra.