„Þegar Fjölnir heyrði í okkur á mánudag þá gerðist þetta allt mjög hratt," segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar Vogum við Fótbolta.net.
Fjölnir hafði samband við Þróttara á mánudag til að fá að ræða við Gunnar Már Guðmundsson, þá þjálfara Þróttar, um að taka við Fjölni.
Fjölnir hafði samband við Þróttara á mánudag til að fá að ræða við Gunnar Már Guðmundsson, þá þjálfara Þróttar, um að taka við Fjölni.
Hrósar Fjölni
„Það má alveg hrósa Björgvini (formanni) og hans fólki hjá Fjölni. Þeim var kunnugt um að þetta myndi gera okkur erfitt fyrir og tímasetningin væri ekki heppileg enda stutt í mót."
Þarf Fjölnir að greiða fyrir Gunnar?
„Félögin gera samkomulag sín á milli og er það samkomulag trúnaðarmál."
Virkilega ánægð fyrir hönd Gunnars
Það er mikil ánægja hjá Þrótturum með störf Gunnars, hann skilaði af sér góðu búi og náði góðum árangri sem þjálfari liðsins. Þróttur endaði í 3. sæti 2. deildar í fyrra, einu stigi frá 2. sætinu eftir að hafa verið spáð 5. sætinu fyrir mót.
„Það er ánægjulegt og mikil viðurkenning fyrir Þrótt Vogum að félög í efri deildunum eru dugleg að leita til okkar eftir frekari liðsstyrk og því ber að fagna þó þetta geti verið niðurstaðan."
„Við erum virkilega ánægð fyrir hönd Gunnars. Við erum líka í þessu til að eignast vini og Herra Fjölnir hefur unnið frábært starf hjá okkur."
Hreinn Ingi stýrir liðinu tímabundið
Hvernig horfir framhaldið við ykkur Þrótturum?
„Það er mikil samheldni innan leikmannahópsins og við erum með gott lið í höndunum. Það er traustur grunnur til staðar. Hópurinn er frábær innan sem utan vallar og það verður gott að fá hópinn í Vogana þegar æfingar hefjast þar um miðjan apríl."
„Hreinn Ingi Örnólfsson aðstoðarþjálfari mun stýra liðinu tímabundið, á meðan leit stendur yfir að nýjum þjálfara."
Þróttarar hófu þegar í stað leit að nýjum þjálfara er Fjölnir hafði samband í upphafi vikunnar.
„Við höfum vissulega tekið fundi og símtöl. Engar formlegar viðræður og ætlum að sjá hvaða möguleikar eru til staðar þegar við höfum heyrt í öllum þeim aðilum sem koma til greina. Það eru alltaf tækifæri í þessu líka."
Leikmenn eru að semja við félagið
Þróttarar ætla að vanda til verka og flýta sér hægt.
„Lengjubikarinn hefst um helgina, við eigum svo Keflavík í bikarnum 6. apríl og að leik loknum fer hópurinn í æfingaferð til Spánar. "
Hefur þetta áhrif á leikmenn sem þið hafið rætt við og eru spenntir fyrir því að koma?
„Félagið er ekki bara þjálfarinn, það er líka leikmenn sem eru fyrir, stuðningsmenn, iðkendur í barnastarfinu og í öllum greinum, samfélagið í Vogum, umgjörðin og allir aðrir sem starfa fyrir félagið. Leikmenn eru að semja við félagið, ekki þjálfara þó það skipti auðvitað líka máli," segir Marteinn.
Athugasemdir