Tveimur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni rétt í þessu en á Anfield mættust Liverpool og Crystal Palace í mjög fjörugum leik.
Liverpool er að berjast á toppnum við Manchester City og Arsenal um titilinn og því mátti liðið alls ekki við því að misstíga sig í dag. Liverpool hefur verið í vandræðum upp á síðkastið en liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Manchester United í síðasta deildarleik og þá steinlá Liverpool gegn Atalanta í Evrópudeildinni í miðri viku.
Crystal Palace byrjaði leikinn miklu betur og var það Eberechi Eze sem kom gestunum í forystu með marki af stuttu færi eftir mjög flotta sókn. Palace sótti áfram og fékk Jean-Philippe Mateta algjört dauðafæri stuttu síðar þegar Virgil van Dijk rann. Mateta setti boltann framhjá Alisson Becker en Andy Robertson bjargaði stórkostlega á marklínu.
Við þetta vaknaði Liverpool og fékk Luis Diaz dauðafæri í fyrri hálfleiknum en Dean Henderson var betri en enginn á milli stanganna í markinu hjá Palace í dag. Þá átti Wataru Endo skot í þverslánna.
Liverpool var betra liðið í síðari hálfleiknum og klúðraði Diogo Jota algjöru dauðafæri en hann kom inn á sem varamaður. Þá komst Darwin Nunez einnig í dauðafæri en Henderson varði frábærlega. Stuttu síðar gat Mateta komið Palace í 2-0 forystu en hann klúðraði þá algjöru dauðafæri inn í markteignum. Alisson varði skot hans meistaralega af stuttu færi. Upp fór Liverpool og þar slapp Curtis Jones einn í gegn en skot hans fór framhjá markinu.
Það var hreint með ólíkindum að fleiri mörk voru ekki skoruð á Anfield í dag. Mohamed Salah klúðraði þá einnig dauðafæri og minnti færið hans mikið á færi Mateta. Hann skaut þá í Henderson af mjög stuttu færi í uppbótartímanum.
Magnaður sigur Palace staðreynd en Liverpool missteig hressilega í baráttu sinni um titilinn. Arsenal getur komist á toppinn með sigri á Aston Villa á eftir.
Þá vann Fulham sterkan útisigur á West Ham United þar sem Andreas Pereira sá um mörkin tvö.
Liverpool 0 - 1 Crystal Palace
0-1 Eberechi Eze ('14 )
West Ham 0 - 2 Fulham
0-1 Andreas Pereira ('9 )
0-2 Andreas Pereira ('72 )
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 1 | Arsenal | 11 | 8 | 2 | 1 | 20 | 5 | +15 | 26 |
| 2 | Man City | 11 | 7 | 1 | 3 | 23 | 8 | +15 | 22 |
| 3 | Chelsea | 11 | 6 | 2 | 3 | 21 | 11 | +10 | 20 |
| 4 | Sunderland | 11 | 5 | 4 | 2 | 14 | 10 | +4 | 19 |
| 5 | Tottenham | 11 | 5 | 3 | 3 | 19 | 10 | +9 | 18 |
| 6 | Aston Villa | 11 | 5 | 3 | 3 | 13 | 10 | +3 | 18 |
| 7 | Man Utd | 11 | 5 | 3 | 3 | 19 | 18 | +1 | 18 |
| 8 | Liverpool | 11 | 6 | 0 | 5 | 18 | 17 | +1 | 18 |
| 9 | Bournemouth | 11 | 5 | 3 | 3 | 17 | 18 | -1 | 18 |
| 10 | Crystal Palace | 11 | 4 | 5 | 2 | 14 | 9 | +5 | 17 |
| 11 | Brighton | 11 | 4 | 4 | 3 | 17 | 15 | +2 | 16 |
| 12 | Brentford | 11 | 5 | 1 | 5 | 17 | 17 | 0 | 16 |
| 13 | Everton | 11 | 4 | 3 | 4 | 12 | 13 | -1 | 15 |
| 14 | Newcastle | 11 | 3 | 3 | 5 | 11 | 14 | -3 | 12 |
| 15 | Fulham | 11 | 3 | 2 | 6 | 12 | 16 | -4 | 11 |
| 16 | Leeds | 11 | 3 | 2 | 6 | 10 | 20 | -10 | 11 |
| 17 | Burnley | 11 | 3 | 1 | 7 | 14 | 22 | -8 | 10 |
| 18 | West Ham | 11 | 3 | 1 | 7 | 13 | 23 | -10 | 10 |
| 19 | Nott. Forest | 11 | 2 | 3 | 6 | 10 | 20 | -10 | 9 |
| 20 | Wolves | 11 | 0 | 2 | 9 | 7 | 25 | -18 | 2 |



