Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   mán 14. apríl 2025 21:32
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Sex mörk, rautt spjald og dramatík í Laugardal - Stjarnan með fullt hús
Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði tvö með fyrirliðabandið
Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði tvö með fyrirliðabandið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur tapaði unnum leik niður í jafntefli
Valur tapaði unnum leik niður í jafntefli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Rúnar skoraði og lagði upp
Andri Rúnar skoraði og lagði upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Baldvin skoraði einnig og lagði upp
Guðmundur Baldvin skoraði einnig og lagði upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan vann annan leik sinn í Bestu deild karla er liðið lagði ÍA að velli, 2-1, á Samsung-vellinum í Garðabæ á meðan KR og Valur gerðu 3-3 jafntefli í hádramatískum Reykjavíkurslag á AVIS-vellinum í Laugardal í kvöld.

KR og Valur voru bæði í leit að fyrsta sigrinum eftir að hafa gert jafntefli í fyrstu umferðinni.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, bauð upp á nokkuð óvænt í byrjunarliði sínu með því að velja hinn 15 ára gamla Sigurð Breka Kárason í liðið.

Þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur og sýndi hann mörg skemmtileg tilþrif í leiknum.

Mikið fjör var strax í byrjun leiks og kom það engum á óvart að fyrsta markið hafi komið snemma. Gabríel Hrannar Eyjólfsson fór illa með Orra Sigurð Ómarsson og síðan Hólmar Örn Eyjólfsson áður en hann kom boltanum fyrir. Boltinn fór af Orra og út til Luke Rae sem kom heimamönnum á bragðið.

KR-ingar gleymdu sér aðeins í varnarleiknum eftir rúman hálftíma er Albin Skoglund hirti boltann af Finni Tómasi Pálmasyni og náði síðan skotinu, en Halldór Snær Georgsson sá við honum í markinu.

Stuttu eftir færið var Gyrðir Hrafn Guðbrandsson hársbreidd frá því að skalla boltann í eigið net eftir hornspyrnu en liðsfélagi hans, Atli Sigurjónsson, kom honum til bjargar á ögurstundu á marklínunni.

Markið lá í loftinu og var það Valur sem gerði það. Finnur Tómas gerði sig aftur sekan um sofandahátt í vörninni. Hann tapaði baráttu við Jónatan Inga Jónsson sem náði síðan að vippa yfir Halldór í markinu og skora.

Staðan jöfn í hálfleik og ákvað Óskar Hrafn að taka Finn Tómas af velli og setja Róbert Elís Hlynsson inn á í hans stað. Ástbjörn Þórðarson skipti þá um stöðu og fór í miðvörðinn.

KR-ingar byrjuðu hálfleikinn á dauðafæri frá Atla Sigurjónssyni sem komst inn í sendingu eftir misskilning frá Bjarna Mark Antonssyni og Stefáni Þór Ágústssyni, en skaut framhjá.

Þetta reyndist dýrt því aðeins nokkrum mínútum síðar fengu Valsarar víti er Gyrðir Hrafn braut á Tryggva í teignum. Danski framherjinn Patrick Pedersen tók vítið og sendi Halldór í rangt horn. Annað mark Pedersen á þessu tímabili.

KR-ingar vildu fá rautt spjald á Tryggva Hrafn tuttugu mínútum fyrir leikslok er hann fór í ljóta tæklingu á Ástbjörn Þórðarson. Helgi Mikael Jónasson veifaði aðeins gulu spjaldi, en af myndum að dæma virðist hafa verið rangur litur á spjaldinu.

Um það bil stundarfjórðungi fyrir lok venjulegs leiktíma jöfnuðu KR-ingar er Jóhannes Kristinn Bjarnason fékk boltann frá Luke Rae við vítateigslínuna og skoraði með laglegu vinstri fótar skoti upp í hornið.

Þegar lítið var eftir af venjulegum leiktíma kom síðan þriðja mark Vals og aftur eftir varnarmistök. Jónatan Ingi hirti boltann af Vicente Valor, setti hann á Pedersen sem hafði betur í baráttunni við Róbert Elís og setti boltann í netið.

KR-ingar gáfu ekki upp von á að ná inn jöfnunarmarki og rættist úr þeirri von er Hólmar Örn Eyjólfsson braut á Aroni Þórð Albertssyni við vítateigslínuna og fékk í kjölfarið sitt seinna gula.

Það var kannski umdeilt hvort brotið hafi átt sér stað fyrir utan en Helgi Mikael benti á punktinn. Jóhannes Kristinn, sem var með fyrirliðabandið seinni hluta leiks, fór á punktinn og bjargaði stigi fyrir heimamenn.

Mögnuð skemmtun og mikil dramatík í Laugardal, en uppskera liðanna aðeins eitt stig. Því eru bæði lið með tvö stig eftir tvo leiki.

Annar sigur Stjörnunnar

Stjörnumenn unnu annan leik sinn í Bestu deildinni í ár með því að merja 2-1 sigur á ÍA í Garðabæ.

Fyrstu tuttugu mínútur leiksins voru heldur rólegar en það dró til tíðinda á 26. mínútu. Benedikt Warén átti hornspyrnu á Guðmund Baldvin Nökkvason sem flikkaði honum áfram á Andra Rúnar Bjarnason sem reis manna hæst og stangaði boltann í netið.

Steinar Þorsteinsson náði að setja jöfnunarmark fyrir Skagamenn áður en hálfleikurinn var úti. Haukur Andri Haraldsson kom boltanum á Steinar sem setti hann viðstöðulaust í stöng og inn. Mikilvægt mark og á mikilvægum tímapunkti.

Ekki munaði miklu að Stjarnan færi með forystu inn í hálfleikinn eftir mistök frá Árna Marinó Einarssyni. Hann sendi boltann beint á Andra Rúnar sem ætlaði að lyfta honum yfir Árna, en brást bogalistin og setti boltann yfir markið.

Snemma í síðari hálfleiknum gat Haukur Andri komið gestunum yfir er hann kom sér í gott færi en Árni Snær Ólafsson var vel á verði gegn sínum gömlu félögum.

Stjörnumenn refsuðu fyrir það klúður aðeins nokkrum mínútum síðar. Andri Rúnar lyfti boltanum yfir vörn Skagamanna og á Guðmund Baldvin sem hamraði honum viðstöðulaust í markið.

Emil Atlason var ekki langt frá því að tvöfalda forystuna skömmu síðar en skalli hans framhjá markinu.

Heimamenn náðu að standa af sér pressu Skagamanna vel á lokakafla leiksins og bætti það síðan gráu ofan á svart er Haukur Andri fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að hamra Baldur Loga Guðlaugsson niður.

Tíu Skagamenn fengu eitt lokafæri til þess að ná í stig úr leiknum er boltinn datt fyrir Rúnar Má Sigurjónsson en skot hans rétt yfir og þar við sat.

Stjarnan er með fullt hús stiga eftir tvo leiki en ÍA með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Stjarnan 2 - 1 ÍA
1-0 Andri Rúnar Bjarnason ('26 )
1-1 Steinar Þorsteinsson ('42 )
2-1 Guðmundur Baldvin Nökkvason ('52 )
Rautt spjald: Haukur Andri Haraldsson, ÍA ('93) Lestu um leikinn

KR 3 - 3 Valur
1-0 Luke Morgan Conrad Rae ('11 )
1-1 Jónatan Ingi Jónsson ('40 )
1-2 Patrick Pedersen ('54 , víti)
2-2 Jóhannes Kristinn Bjarnason ('76 )
2-3 Patrick Pedersen ('89 )
3-3 Jóhannes Kristinn Bjarnason ('101 , víti)
Rautt spjald: Hólmar Örn Eyjólfsson, Valur ('99) Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 2 2 0 0 6 - 0 +6 6
2.    Stjarnan 2 2 0 0 4 - 2 +2 6
3.    Vestri 2 1 1 0 2 - 1 +1 4
4.    Fram 2 1 0 1 4 - 3 +1 3
5.    Breiðablik 2 1 0 1 4 - 4 0 3
6.    ÍA 2 1 0 1 2 - 2 0 3
7.    KR 2 0 2 0 5 - 5 0 2
8.    Valur 2 0 2 0 4 - 4 0 2
9.    Afturelding 2 0 1 1 0 - 2 -2 1
10.    ÍBV 2 0 1 1 0 - 2 -2 1
11.    KA 2 0 1 1 2 - 6 -4 1
12.    FH 2 0 0 2 1 - 3 -2 0
Athugasemdir
banner
banner