Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   mán 14. apríl 2025 12:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fyrsta deildartap Breiðabliks í níu og hálfan mánuð
Blikar voru með öll völd á leiknum framan af leik.
Blikar voru með öll völd á leiknum framan af leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurjón Rúnarsson kom Fram á bragðið í gær.
Sigurjón Rúnarsson kom Fram á bragðið í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram lagði í gær Breiðablik í 2. umferð Bestu deildarinnar, 4-2 urðu lokatölur en Breiðablik leiddi 0-2 eftir 70 mínútna leik. Rúmum tíu mínútum síðar var staðan orðin 4-2 fyrir heimamenn í Úlfarsárdalnum.

Þetta var fyrsta deildartap Breiðabliks eftir að hafa verið taplaust í 15 leikjum. Íslandsmeistarar síðasta árs höfðu unnið tólf leiki og gert þrjú jafntefli í Bestu deildinni fyrir leikinn í gær. Síðasta tap Breiðabliks kom gegn FH þann 28. júní í fyrra, fyrir níu hálfum mánuði síðan eða 289 dögum.

Breiðablik hafði tapað fjórum leikjum í millitíðinni; Lengjubikarsleik í vetur gegn einmitt Fram, og þremur leikjum í forkeppni Sambandsdeildarinnar í júlí í fyrra.

Lestu um leikinn: Fram 4 -  2 Breiðablik

Sigurinn var þá fyrsti deildarsigur Fram eftir fimm töp í röð. Liðið sigraði Fylki 22. september í fyrra, tryggði sér með því sætið í Bestu deildinni og var fátt um fína drætti í síðustu fjórum leikjunum.

„Nei nei, það er leiðinlegt að tapa. Þú getur tapað á ýmsan hátt og það er ömurlegt að tapa svona. Þetta hrærir andlega, þeir hlupu yfir okkur og börðu á okkur og það er óþolandi. Þetta er svekkjandi en enginn skellur, lífið heldur bara áfram," sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, í viðtali eftir leikinn í gær þegar hann var spurður hvort tapið hefði verið skellur.

„Frábært að ná í þessi bónusstig í dag, maður hefði kannski viljað vinna Skagann eða ná jafntefli þar, og sjá svo hvort við gætum strítt Breiðabliki eitthvað. Maður var kannski ekki búinn að reikna með þremur stigum gegn Blikum, en það lagar stöðuna fyrir okkur eftir að hafa verið búnir að tapa fyrsta leik," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, í viðtali eftir leikinn í gær.

Fram mætir næst FH í bikarnum á laugardag og Breiðablik tekur á móti annað hvort RB eða Fjölni á föstudagskvöld. Viðtölin eftir leikinn í gær má nálgast hér að neðan.
Dóri Árna: Stórfurðulega dæmdur leikur en við vorum sjálfum okkur verstir
Rúnar Kristins: Gaui Þórðar sagði það alltaf í gamla daga
Gummi Magg: Ætlaði bara að breyta leiknum
Athugasemdir
banner