Sandro Wagner, aðstoðarþjálfari þýska landsliðsins, er einn af þeim þjálfurum sem koma til greina í starfið hjá Borussia Dortmund, en þetta segir þýski miðillinn Bild.
Nuri Sahin er þjálfari Dortmund en sæti hans er sagt heitt og eru taldar miklar líkur á því að félagið geri breytingar á næstu dögum.
Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Dortmund, er hrifinn af hugmyndafræði Wagner, sem er þó ekki eini þjálfarinn sem er orðaður við starfið.
Bild segir hins vegar að Wagner sé líklegri til þess að vera áfram aðstoðarmaður Julian Nagelsmann í þýska landsliðinu en að taka við félagsliði á þessum tímapunkti.
Erik ten Hag, fyrrum stjóri Manchester United, hefur einnig verið orðaður við starfið hjá Dortmund.
Wagner er ungur þjálfari eða aðeins 37 ára gamall, en hann hefur tekið mörg stór skref í þjálfun síðan hann lagði skóna á hilluna fyrir fimm árum.
Fyrrum framherjinn lék meðal annars með Bayern München, Herthu Berlín og Hoffenheim á ferli sínum og skoraði fimm mörk í átta landsleikjum með þýska landsliðinu.
Þjóðverjinn byrjaði þjálfaraferilinn vel. Hann tók við SpVgg Unterhaching í D-deildinni og kom liðinu upp um deild tveimur árum síðar, en hann hætti með liðið eftir tímabilið og gerðist aðstoðarþjálfari U20 ára landsliðsins. Sama ár kom hann inn í þjálfarateymi Rudi Völler hjá A-landsliðinu og hélt áfram í því starfi er Nagelsmann tók við keflinu.
Athugasemdir