Arsenal vill Williams og Merino - Sancho eftirsóttur - Trent vill vera áfram
   lau 15. júní 2024 20:56
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Meistararnir hefja titilvörnina á sigri
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ítalía 2 - 1 Albanía
0-1 Nedim Bajrami ('1)
1-1 Alessandro Bastoni ('11)
2-1 Nicolo Barella ('16)

Evrópumeistararnir í liði Ítalíu mættu í dag til leiks á sitt fyrsta stórmót síðan þeir unnu síðasta Evrópumót, eftir að hafa afar óvænt mistekist að tryggja sér farmiða á síðustu tvö heimsmeistaramót.

Þeir byrjuðu afar illa gegn nágrönnum sínum frá Albaníu, sem tóku forystuna með fljótasta marki sem hefur verið skorað á Evrópumóti.

Nedim Bajrami, sem féll úr efstu deild á Ítalíu með Sassuolo á nýliðnu tímabili, skoraði eftir 23 sekúndur. Hann nýtti slæmt innkast Federico Dimarco, komst í boltann og skoraði með föstu skoti í nærhornið.

Ítalir brugðust vel við opnunarmarkinu og komust strax í fínt færi. Þeim tókst svo að jafna á elleftu mínútu, þegar Alessandro Bastoni skallaði fyrirgjöf frá Lorenzo Pellegrini í netið í kjölfarið af stuttri hornspyrnu.

Ítalir héldu sóknarþunganum áfram og uppskáru mark fimm mínútum síðar. Boltinn barst þá á lofti til Nicoló Barella sem lét vaða með glæsilegu viðstöðulausu skoti sem reyndist óverjandi fyrir Thomas Strakosha á milli stanganna.

Staðan var þá orðin 2-1 og Ítalir við stjórn, en þeim tókst ekki að bæta öðru marki við. Strakosha átti frábæran leik í markinu hjá Albaníu og hélt sínum mönnum í leiknum með góðum markvörslum.

Síðari hálfleikur var nokkuð tíðindalítill en Albanar fengu gott marktækifæri á lokamínútunum og gerði Gigi Donnarumma vel að verja frá Rey Manaj sem hafði sloppið í gegn.

Albanir voru ekki sérlega hættulegir og urðu lokatölurnar 2-1 fyrir Ítalíu.

Ítalir og Spánverjar byrja því B-riðil á sigrum gegn Albönum og Króötum.


Athugasemdir
banner
banner