Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 15. október 2020 09:17
Magnús Már Einarsson
Þorgrímur braut reglur UEFA
Icelandair
Þorgrímur faðmar Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða eftir leikinn gegn Rúmeníu.
Þorgrímur faðmar Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða eftir leikinn gegn Rúmeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorgrímur Þráinsson, starfsmaður íslenska landsliðsins, braut reglur UEFA með því að fara inn á völl eftir leikinn gegn Rúmeníu í síðustu viku og faðma leikmenn landsliðsins eftir sigurinn í umspilinu. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Þorgrímur greindist með kórónuveiruna á þriðjudag og í kjölfarið var allt starfslið Íslands sett í sóttkví. Það var því nýtt starfslið sem var á hliðarlínunni gegn Belgum í gær en Erik Hamren, landsliðsþjálfari, og Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari, horfðu á leikinn úr glerbúri á Laugardalsvelli og voru í samskiptum við bekkinn.

11 starfsmenn mega vera á leikskýrslu en Þorgrímur var ekki einn þeirra í leikjunum gegn Rúmeníu og Danmörku. Hann var hins vegar á svæði sem kallast Technical additional seats sem er misjafnt hvað KSÍ nýtir en UEFA gefur leyfi fyrir 45 manns. Þar geta til dæmis verið auka sjúkraþjálfarar, öryggisstjóri, tengiliður fyrir fjölmiðla, einstaka sinnum kokkur og svo framvegis.

Þorgrímur og Magnús Gylfason, formaður landsliðsnefndar, fóru inn á völlinn til að fagna eftir leikinn gegn Rúmenum í síðustu viku en að sögn Fréttablaðsins var Magnús með grímu.

„Þó það sé ekki minnst á það berum orðum í reglugerð UEFA þá stendur að starfsmenn sem eru ekki á skýrslu eigi ekki að fara inn á völlinn. Þorgrímur þverbraut því reglur UEFA, sem er forsenda þess að fótboltinn fór aftur af stað, með því að arka inn á völlinn og knúsa þar leikmann og annan - grímulaust," segir í frétt Fréttablaðsins í dag.

„Samkvæmt reglum UEFA, sem kallast UEFA Return to Play Protocol v2, á að hafa algjöran aðskilnað milli leikmanna og starfsmanna, hvort sem það er í matmálstímum eða ferðalögum til og frá æfingum og ýmislegt fleira," segir einnig í fréttinni.

Því fóru starfsmenn í sóttkví eftir að smit kom upp hjá Þorgrími en leikmenn þurftu ekki að fara í sóttkví.
Athugasemdir
banner
banner
banner