Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   sun 16. júní 2024 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sylvinho: Synd að hafa ekki jafnað undir lokin
Kristjan Asllani var niðurlútur eftir tapið.
Kristjan Asllani var niðurlútur eftir tapið.
Mynd: EPA
Fimmtugur Sylvinho hefur engu gleymt frá dögum sínum sem atvinnumaður í fótbolta.
Fimmtugur Sylvinho hefur engu gleymt frá dögum sínum sem atvinnumaður í fótbolta.
Mynd: EPA
Brasilíumaðurinn Sylvinho, sem lék meðal annars fyrir Arsenal, Barcelona, Manchester City og brasilíska landsliðið á ferli sínum sem vinstri bakvörður, er landsliðsþjálfari Albaníu í dag.

Hann var stoltur af leikmönnum sínum eftir 2-1 tap gegn Ítalíu í fyrstu umferð Evrópumótsins í Þýskalandi í gærkvöldi.

Albanar tóku forystuna eftir 23 sekúndur en misstu hana fljótt niður og voru lentir undir á 16. mínútu.

„Við áttum að verja forystuna betur en það má ekki gleyma því að við vorum að spila gegn afar sterkum andstæðingum. Ítalir juku tempóið í leiknum eftir að hafa lent undir og það hjálpaði þeim," sagði Sylvinho eftir tapið.

„Það er synd að okkur hafi ekki tekist að halda forystunni lengur en þetta var mjög erfitt verkefni. Því miður þá réðum við ekki við Ítalina á fyrstu 25 mínútunum, en eftir það vorum við með í leiknum."

Albanía er í dauðariðli Evrópumótsins ásamt Spáni og Króatíu, auk Ítalíu. Næsti leikur liðsins er nágrannaslagur gegn Króötum, sem hafa gert frábæra hluti á undanförnum stórmótum.

Sylvinho vonast til að stuðningsmenn Albaníu fjölmenni á þann leik eins og þeir gerðu gegn Ítalíu í gærkvöldi.

„Úrslitin eru vonbrigði fyrir okkur. Við lögðum gríðarlega mikla undirbúningsvinnu í þennan leik en tókst ekki að ná í stig.

„Stuðningsmennirnir voru ótrúlegir. Við vissum að áhorfendapallarnir yrðu rauðir, það voru svo margir stoltir Albanar mættir á völlinn en því miður gátum við ekki glatt þá með jákvæðum úrslitum. Það er synd að okkur tókst ekki að skora jöfnunarmark þegar við fengum færi á lokamínútunum."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner