Þýðir ekkert að leggjast niður og fara að grenja
„Ég hef verið betri, ég viðurkenni það," voru fyrstu orð Hrannars þegar fréttaritari heyrði í honum í dag.
Hrannar Björn Steingrímsson er leikmaður KA og hefur verið frá árinu 2014 þegar hann kom frá uppeldisfélaginu Völsungi. Hann hefur verið byrjunarliðsmaður í liði KA og byrjaði fyrstu tvo leikina í mótinu. Hrannar er 29 ára og spilar oftast í hægri bakverði.
Hrannar Björn Steingrímsson er leikmaður KA og hefur verið frá árinu 2014 þegar hann kom frá uppeldisfélaginu Völsungi. Hann hefur verið byrjunarliðsmaður í liði KA og byrjaði fyrstu tvo leikina í mótinu. Hrannar er 29 ára og spilar oftast í hægri bakverði.
Hann meiddist gegn KR í annarri umferð en sneri til baka og kom inn á sem varamaður í bikarleiknum gegn Stjörnunni og deildarleiknum gegn FH í lok júní. Hann mun ekki spila meira með á leiktíðinni þar sem hann varð fyrir alvarlegum meiðslum á dögunum.
„Krossbandið er farið, liðþófinn er rifinn, svo er ég með eitthvað beinmar. Það er einnig einhver grunur um lítið beinbrot í sköflungi og lærbeini. Ég held að það sé bara einhver smáflís, ekkert stórkostlegt vandamál. Krossbandið er númer eitt, tvö og þrjú, það versta í þessu," sagði Hrannar þegar hann taldi upp öll meiðslin.
Hver vika telur
Er núna beðið eftir aðgerð?
„Já, ég er að vonast eftir því að geta farið í aðgerð hjá Gauta Laxdal. Hann er í sumarfríi eins og er þannig ég er ekki með neina dagsetningu. Ég vonast eftir því að komast í aðgerð sem allra allra fyrst svo maður verði klár í næsta tímabil."
„Hver vika telur í þessu, það er yfirleitt reiknað með níu mánuðum eftir aðgerð og því fyrr sem ég fer í aðgerð því fyrr verð ég klár."
Festist í gervigrasinu á KA-svæðinu
Hvernig gerist þetta allt saman?
„Ég meiðist fyrst á móti KR í annarri umferð á hné. Talið var að ég hafði meiðst á innra liðbandi á hné. Ég fer í kjölfarið til sjúkraþjálfara að reyna koma mér til baka úr þeim meiðslum."
„Ég kem svo til baka og kem inn á gegn Stjörnunni og FH og á þriðjudeginum eftir FH-leikinn festist ég í skraufaþurru gervigrasinu upp á KA-svæðinu og fæ leikmann á fullum þunga á hliðina á löppinni. Það er sennilega einn mesti sársauki sem ég hef fundið á ævinni, þetta var bara viðbjóður."
„Um kvöldið var ég merkilega góður, ég hélt að ég yrði jafnvel góður á mánudeginum eftir þetta. En svo vakna ég daginn eftir og er búinn að bólgna þvílíkt upp og gat varla stigið í fótinn."
„Þegar bólgan var aðeins farin að hjaðna og vökvinn í hnénu búinn að minnka þá fór ég í segulómun fyrir sunnan og fékk niðurstöðu á mánudaginn síðasta."
„Kannski fór eitthvað meira í leiknum gegn KR en þetta innra liðband, ég þekki það ekki en það þýðir ekkert að spá í því núna. Þetta er bara niðurstaðan, tímabilið búið og þetta snýst núna um að komast til baka sem allra allra fyrst."
Styrkir hnéð fyrir aðgerðina
Ertu á hækjum fram að aðgerð?
„Nei, nei, alls ekki. Ég er alveg gangandi núna og allt í góðu. Ég var að koma úr ræktinni rétt áðan. Þeir mæla með því að áður en maður fer í aðgerð að maður sé aðeins að vinna í þessu svæði. Ég get alveg gengið og gert ýmislegt í ræktinni. Þeir vilja að maður styrki hnéð og vöðvana í kringum hné upp á endurhæfinguna að gera. Menn tala um að það sé mjög gott í stað þess að hanga bara og gera ekki neitt fram að aðgerð."
Hvernig er hnéð núna, ertu laus við sársauka?
„Það er smá vökvi í hnénu en töluvert minna en fyrst. Ég get ekki sagt að ég sé alveg laus við sársauka, það eru ákveðnar hreyfingar sem valda því að ég finn til, t.d. þegar ég rétti alveg úr hnénu. Ég get ekki beygt það heldur alveg að fullu. Núna haltra ég samt töluvert minna en ég gerði fyrst."
Þýðir ekkert að leggjast niður og fara að grenja
„Þetta er frekar súrt en maður tekur þessu. Ég er búinn að horfa upp á marga vini mína undanfarin ár lenda í þessum sömu meiðslum. Þeir hafa sýnt þvílíkt fordæmi og verið geggjaðir í þessu erfiða ferli."
„Núna Haddi síðast og Elfar Árni. Ásgeir Sigurgeirs hefur svo lent í þessu tvisvar eða þrisvar. Það þýðir ekkert fyrir mig að leggjast niður og fara að grenja og sýna að ég geti ekki komið til baka. Þetta er ákveðin vinna sem maður verður að vera tilbúinn að leggja á sig til að vera kominn til baka sem fyrst. Nú setur maður bara stefnuna á næsta tímabil. Það er stefnan að vera kominn í hóp í fyrstu leikjunum á næsta tímabili," sagði Hrannar að lokum.
Athugasemdir