Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð fer fram í Istanbúl í maí mánuði og telur UEFA það líklegt að áhorfendur fái að mæta á völlinn.
UEFA er að undirbúa það að hafa áhorfendur á leiknum en þeir hafa verið meira og minna bannaðir í keppninni síðasta árið. Þrátt fyrir að áhorfendur hafa ekki verið á vellinum í keppninni í ár, þá er stefnan að þeir verði mættir á úrslitaleikinn.
Í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar hafa félög neyðst til þess að spila leiki sína á hlutlausum völlum. Sem dæmi fóru báðir leikir í einvígi Liverpool og RB Leipzig fram í Ungverjalandi.
UEFA gerir ráð fyrir því að lið geti spilað á sínum eigin heimavöllum það sem eftir er keppninnar. Heimildir ESPN herma að ólíklegt er að stuðningsmenn fái að mæta á leiki í 8-liða og undanúrslitum en stefnan er sett á það að Istanbúl taki á móti áhorfendum í maí.
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar árið 2020 fór fram á Estadio da Luz í Lissabon án áhorfenda, þar sem Bayern Munchen lagði PSG að velli.
Athugasemdir