Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   þri 20. desember 2016 15:55
Magnús Már Einarsson
Lokeren í viðræðum um kaup á Gary Martin
Gary skorar gegn Þrótti í sumar.
Gary skorar gegn Þrótti í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Belgíska félagið Lokeren er að reyna að kaupa Gary Martin, framherji Víkings. Rúnar Kristinsson, þjálfari Lokeren, þekkir Gary vel en hann fékk enska framherjann til KR á sínum tíma. Í sumar fékk Rúnar síðan Gary til norska félagsins Lilleström á láni.

Rúnar var rekinn frá Lilleström í september en Gary lék með liðinu út tímabilið og hjálpaði því að bjarga sér frá falli. Gary gæti nú verið á leið til Lokeren en viðræður eru hafnar á milli félaganna.

„Það eru viðræður í gangi en það er alltof snemmt að segja eitthvað á þessum tímapunkti," sagði Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Lilleström hefur einnig áhuga á að halda Gary áfram innan sinna herbúða. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Gary, staðfesti í samtali við Fótbolta.net í dag að bæði Lokeren og Lilleström hafi verið í sambandi en þau þurfa að ná samkomulagi við Víking um kaupverð.

„Þó að það sé ekkert búið fyrr en það er búið að skrifa undir þá er ólíklegt að hann spili á Íslandi næsta sumar," sagði Ólafur.

Íslensku landsliðsmennirnir Ari Freyr Skúlason og Sverrir Ingi Ingason spila með Lokeren en liðið er í 11. sæti af 16 liðum í belgísku úrvalsdeildinni. Lokeren hefur skorað 19 mörk í 19 leikjum á tímabilinu og er í leit að framherja til að styrkja sóknarleikinn.
Athugasemdir
banner
banner