Man Utd reynir við Gyökeres í þessum glugga - Trent færist nær Real Madrid - Arsenal leiðir kapphlaupið um Omar Marmoush
banner
   mán 22. ágúst 2022 11:40
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Kom heim til að skapa sér nafn - „Ég elska allt við boltann"
Danijel Djuric elskar boltann.
Danijel Djuric elskar boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danijel ólst upp á Blönduósi og er Hvatarmaður.
Danijel ólst upp á Blönduósi og er Hvatarmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Adam Ciereszko
Danijel Djuric hefur skemmt áhorfendum Bestu deildarinnar síðan hann gekk í raðir Víkings í sumarglugganum. Þessi nítján ára leikmaður kom frá Midtjylland í Danmörku, þar sem hann lék fyrir varalið og yngri liðin, og hefur fyllt í skarðið sem Kristall Máni Ingason skildi eftir sig þegar hann var seldur til Noregs.

Danijel var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

„Pabbi spilaði fyrir Tindastól og Hvöt og það var ástæðan fyrir því að fjölskyldan kom frá Serbíu til Íslands. Ég er sjálfur fæddur í Búlgaríu og pabbi kom hingað sem fótboltamaður," segir Danijel sem var tveggja ára þegar hann flutti hingað til lands.

„Ég er uppalinn á Blönduósi og er Hvatarmaður. Við fluttum svo í Kópavoginn þegar ég er 12-13 ára og ég fer þá í Breiðablik. Við vorum mjög sigursælir og unnum alla titlana í yngri flokkunum."

Danijel hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands en hann var fimmtán ára þegar hann var keyptur út til Midtjylland og þar var hann í þrjú ár.

„Ég fór í akademíuna þar og það var mjög spennandi. Midtjylland er toppklúbbur sem einbeitir sér mikið að yngri leikmönnum. Það heillaði mig. Fjölskyldan fór öll saman sem var fullmikið fannst mér. Ég spilaði með yngri liðunum, varaliðinu og svo einhverja æfingaleiki með aðalliðinu. Þetta var mjög gaman og eitthvað sem maður sér ekki eftir," segir Danijel.

'Ég er Son í dag'
Hann hafði kosti erlendis en hver var ástæðan fyrir því að hann yfirgaf Midtjylland og kom til Íslands?

„Ég vildi spila aðalliðsbolta. Ég fékk nokkur tilboð að utan en ég vildi koma til Íslands og vera nafn. Ég vildi að nafnið mitt yrði þekkt á Íslandi. Það greip meira í mig en að vera úti."

Hvað heillaði hann við Víking og af hverju fór hann þangað frekar en í Breiðablik?

„Maður sá hvernig Kristall gerði þetta. Hann bjó til leið sem mér fannst geggjuð. Arnar (Gunnlaugsson) er geðveikur gæi og fundirnir hans, það er skoðað hvað Chelsea, Liverpool og þessi lið eru að gera. Það er bara 'Prem, Prem'. Ég hef alltaf hatað fundi fyrir leiki en það er svo gaman að horfa á þetta. Maður hugsar 'Ég er Son í dag', þetta er geðveikt," segir Danijel.

„Ég æfði með Blikum í dágóðan tíma meðan ég var að leita mér að liði. Ég æfði með þeim í einhverjar vikur. Ég ákvað á endanum að velja Víking frekar, það er ekkert flóknara en það."

Það fallegasta í heimi
Danijel hefur tekið þátt í nokkrum svakalegum leikjum á stuttum tíma með Víkingi. Þar á meðal 5-3 bikarsigurinn gegn KR á fimmtudaginn þar sem staðan var jöfn þegar örfáar mínútur voru eftir. Danijel krækti þá í vítaspyrnu.

„Þetta er það sem fótboltinn snýst um, áran yfir þessu. Átta marka leikur og allt í honum. Víti, aftur víti og tilfinningarnar. Þetta er fótboltinn og það fallegasta í heimi finnst mér," segir Danijel.

Danijel býr yfir mikilli tækni og líður afskaplega vel með boltann, leikgleðin geislar af honum.

„Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir. Ég elska boltann. Þegar ég var lítill var hægt að setja mig út einan með boltann og ég var bara í tíu tíma. Fegurðin við boltann, hvernig hann skoppar, hvernig maður getur 'touchað' hann, allt það. Mér finnst líka gaman þegar fólk segir mér að þeim finnist gaman að horfa á mig spila fótbolta," segir Danijel Djuric.

Í viðtalinu lýsir hann upplifuninni að skora á móti Lech Poznan, ræðir um stuðninginn frá fjölskyldum og vinum, áhuga sinn á dönsku rappi og tenniskappinn Novak Djokovic kemur einnig við sögu.

Hlustaðu á þáttinn í heild í spilaranum hér að neðan, í hlaðvarpsveitum eða á Spotify:
Útvarpsþátturinn - Læti í Kórnum, enskur stórleikur og Danijel Djuric
Athugasemdir
banner
banner