Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 23. ágúst 2021 15:49
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Af hverju ekki fyrr?
Logi Hrafn gegn Rosenborg.
Logi Hrafn gegn Rosenborg.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í leiknum gegn Keflavík.
Í leiknum gegn Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Logi Hrafn Róbertsson lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki FH sumarið 2019. Hann kom svo við sögu í átta leikjum síðasta sumar. Fyrri hluta þessa sumars fékk hann ekki marga sénsa með liði FH en hann hefur komið vel inn í liðið að undanförnu.

Logi lék mikið í miðverði í fyrra en í sumar hefur hann spilað á miðjunni. Hann er fæddur árið 2004 og var í U19 landsliðinu í júní.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfara FH, í dag og var Davíð spurður út í Loga.

Fengu enga snilldar hugdettu
„Hann er miðjumaður og hefur spilað mikið þar í yngri flokkunum. Þessar mínútur sem hann hefur fengið í sumar hafa verið þannig að hann hefur verið að koma inn á miðjuna hjá okkur. Það er ekki eins og við höfum fengið einhverja snilldar hugdettu að prófa hann á miðjunni. Hann er búinn að vera mjög góður þar með 2. flokki í sumar," sagði Davíð.

„Hann er góður í fótbolta, góður að leysa þröngar stöður, rólegur á boltanum og með mikla hlaupagetu. Hann gæti alveg orðið hafsent í framtíðinni, það er ekki málið, en eins og staðan er núna fannst okkur henta best að vera með hann á miðjunni. Hann hefur sýnt það í síðustu tveimur leikjum að það hentar honum vel að vera í þessari stöðu."

Af hverju ekki fyrr?
Davíð kom inn á það í viðtali (má sjá neðst) eftir síðasta leik að Logi hefði kannski átt að fá tækifæri fyrr í sumar. Er einhver ástæða fyrir því að hann fékk ekki fleiri tækifæri fyrr á tímabilinu?

„Nei, það er engin konkret ástæða. Við höfum ekki verið upp á okkar besta, svo prófar maður eitthvað sem að virkar og þá að sjálfsögðu ferðu að hugsa af hverju þú gerðir það ekki fyrr. Logi Hrafn er ótrúlega efnilegur og ætli helsta ástæðan hafi ekki verið sú að maður var hræddur við eitthvað sem maður átti ekki að vera hræddur við."

„Á meðan hann heldur áfram að spila svona þá er hann að fá mjög mikið af mínútum fyrir loka tímabilsins. Það er undir honum komið að halda áfram að sýna okkur það að hann eigi heima í byrjunarliðinu."


Þurfa að lifa með því
Kom ekki til greina að senda hann á lán fyrri hluta tímabilsins?

„Nei, við auðvitað spiluðum mikið á sama liðinu fyrri hlutann og maður verður að vera gagnrýninn á sjálfan sig að það var eitthvað sem við hefðum átt að gera meira af, að hreyfa liðið. Við ákváðum að gera það ekki og þurfum að lifa með því."

„Að því sögðu þá vorum við ekki með neitt rosalega breiðan hóp og þó svo að hann hafi ekki fengið mikið af mínútum þá var hann ekki númer átján eða nítján. Hann var alltaf númer 13-15 en við ákváðum að hreyfa liðið lítið og því fékk hann minna að spila. Það kom aldrei til greina að lána hann. Við vissum að hann myndi fá hlutverk en það hefði mátt vera stærra örlítið fyrr,"
sagði Davíð að lokum.

FH hefur unnið síðustu tvo leiki samanlagt 10-0 og hefur Logi verið í byrjunarliðinu í báðum leikjunum. Eins og flestir vita hefur tímabilið hjá FH verið vonbrigði og liðið ekki í neinni baráttu þegar liðið á fimm leiki á eftir af tímabilinu.

Sjá einnig:
Hin hliðin - Logi Hrafn
Davíð Þór: Hann bara sló í hnakkann á Jóhanni
Athugasemdir
banner