Fótboltinn er miskunnarlaus og það sannaðist enn og aftur í gærkvöldi þegar Claudio Ranieri var látinn taka pokann sinn. Vald leikmanna er mikið og það voru leikmenn Leicester sem urðu til þess að vinalegi Ítalinn var látinn fara.
Það er vissulega sorglegt að sjá mann sem færði Leicester óvæntan og sögulegan sigur verða skyndilega atvinnulaus níu mánuðum eftir að bikarinn fór á loft. Þetta var afrek sem aldrei mun gleymast og vitnað verður í um ókomin ár.
En fótboltinn er í núinu. Wenger á ekki að vera endalaust hjá Arsenal bara fyrir að vera goðsögn og Rooney er ekki nægilega góður í dag til að spila með Manchester United þrátt fyrir að hafa skorað öll þessi mörk á ferlinum.
Ranieri var á leiðinni niður með Leicester. Það er raunveruleikinn sem eigendur félagsins voru að horfast í augu við. Eigum við að gefa honum friðhelgi vegna ótrúlegs afreks hans í fyrra og fara niður eða eigum við að bregðast við og grípa til örþrifaráða í þeirri von að spila áfram í deild þeirra bestu?
Þetta hefur verið ólýsanlega erfið ákvörðun hjá eigendunum sem nú eru málaðir sem sálarlaus skrýmsli. Þeir vissu alveg hver viðbrögðin yrðu, en nú var að hrökkva eða stökkva og gera bakið breitt.
Það er nokkuð síðan að háværar raddir fóru að óma um að leikmenn væru skyndilega búnir að missa trúna á Ranieri. Klefinn farinn. Ólíkt síðasta tímabili var Ranieri farinn að gera ýmsar breytingar á leikaðferðinni milli leikja og það ku ekki hafa lagst vel í menn.
Fjölmiðlar á Englandi greindu frá því að nokkrir af eldri leikmönnum liðsins hefðu kvartað yfir Ranieri við Vichai Srivaddhanaprabha eiganda. Þar sögðust þeir ekki hafa hugmynd um hlutverk sitt og að liðið væri á leið beint niður ef ekkert yrði gert.
Tímabilið í ár hefur verið algjör andstæða við drauminn í fyrra, fyrir utan Meistaradeildina. Skýringarnar eru mjög margar. Tímabilið í fyrra var einsdæmi, N'Golo Kante er saknað gífurlega, andstæðingarnir eru betur viðbúnir og svo mætti lengi telja. Sökin er þó vissulega fyrst og fremst leikmanna liðsins. Þeir hafa brugðist og þeir stungu Ranieri í bakið.
Eigendunum er svo stillt upp við vegg og þeir þurfa að taka ákvörðun. Ranieri á skilið að fá styttu af sér fyrir utan King Power leikvanginn en ákvörðunin sem eigendurnir tóku var einfaldlega rétt.
Athugasemdir