Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Sindra sem leikur í 2. deild karla, greindi í gær frá því að hann væri kominn í leyfi frá störfum sínum hjá félaginu. Hann gagnrýndi bæinn fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á félaginu.
„Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði... Að líða eins og maður sé alltaf fyrir eða eins og starfið sé graftarkýli á bæjarfélaginu er ekki góð tilfinning fyrir hvaða starfsmann í hvaða starfstétt sem er, en nákvæmlega þannig líður mér í dag," skrifaði Óli Stefán í pistli sínum og gagnrýndi aðstöðuleysið sem Sindri býr við. Fótboltaðstæður á Höfn eru ekki góðar og hefur liðið þurft að ferðast 250 kílómetra á Reyðarfjörð til að spila heimaleiki í byrjun tímabils.
„Grasvellir okkar eru slæmir enda löngu komnir á tíma og æfingasvæðið ónýtt og beinlínis hættulegt," segir Óli Stefán einnig.
Bæjarstjórinn svarar
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, skrifaði svar undir pistil Óla Stefáns fyrir hönd bæjarfélagsins. „Það er ekki gott ef þú ert að bugast og finnur fyrir neikvæðni í garð ykkar góða starfs – í þannig aðstæðum líður engum vel. Mig langar þó aðeins að bregðast við þessu fyrir hönd sveitarfélagsins. Í fyrsta lagi tek ég heilshugar undir með þér um allt sem þú segir um mikilvægi ykkar í Sindra fyrir samfélagið – starf Sindra er okkur ómetanlegt," skrifar Sigurjón en hér fyrir neðan má sjá svar hans í heild sinni.
Núverandi stuðningur sveitarfélagsins við Sindra
Sveitarfélagið Hornafjörður styður UMF Sindra með samningi sem er vísitölutengdur og tryggir Sindra árlega hækkun. Samningurinn hljóðaði upp á rúmar 23 milljónir á síðasta ári og er greiddur skv. reikningi mánaðarlega. Nýlega samþykkti bæjarráð einnig samning við knattspyrnudeild um vallarumhirðu og er sá samningur upp á 3.750 þús. kr. Þá er ótalin sláttur á Jökulfellsvellinum sem var 4-5 milljónir í fyrra. Þarna er að sjálfsögðu líka ótalin kostnaður sveitarfélagsins vegna reksturs íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og viðhalds þeirra – kostnaður sem við teljum ekki eftir okkur og erum býsna stolt af.
Aukin stuðningur sveitarfélagsins til Sindra
Í nóvember sl. óskaði UMF Sindri eftir auknum styrk til félagsins. Þá þótti okkur stjórnendum hjá sveitarfélaginu alls ekki skýrt hvers vegna þörf var á tvöföldun á styrk sveitarfélagsins á þeim tíma, né hvaða stóra breyting hefði átt sér stað hjá Ungmennafélaginu okkar sem orsakaði þessa skyndilega miklu hækkunarþörf. Og nú þegar árið hefur verið gert upp hjá Sindra og staðan er skýrari, liggur fyrir okkur að taka ákvörðun um mögulega hækkun á styrktarsamningi.
Vallaraðstæður okkar og næstu skref þar
Mikið vildi ég óska að hér í Hornafirði væri þegar komið fullkomið gervigras – það myndi breyta miklu. Ákvörðun um forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja er á næsta leiti og hefur þegar verið unnin verðmæt vinna við greiningu á stöðunni varðandi þetta. En sama hver ákvörðunin er, þá er alltaf einhver tími þar til framkvæmdir geta hafist og það leysir ekki stöðuna í dag og ekki í sumar. Þess vegna var óskað eftir því að forstöðumaður íþróttamiðstöðvar gerði sérstakar ráðstafanir og áætlun um hvernig má halda Jökulfellsvellinum í betra standi í sumar en síðasta sumar – við bindum vonir við þá áætlun.
Kostnaður við bikarleikinn – og fordæmið?!
Varðandi það að sveitarfélagið hafi ekki viljað greiða krónu varðandi kostnaðinn við bikarleikinn því þið þyrftuð að spila á Reyðarfirði þá kom það erindi vissulega til okkar. En við sem stjórnum sveitarfélaginu verðum einfaldlega að huga að fordæminu sem slíkur styrkur hefði getað skapað. Ef við hefðum styrkt knattspyrnudeild við að mæta í leikinn, hvað með næsta leik og aðra leiki annarra deilda? Þarna verður sveitarfélagið einfaldlega að gæta jafnræðis og það er miklu eðlilegra að ræða þetta í stóra samhenginu og tengt okkar núverandi styrktarsamningi. Um þetta bókaði bæjarráð meðal annars: „Sveitarfélagið hefur ekki greitt sérstaka aðra styrki til að mæta ferðakostnaði mismunandi deilda innan Sindra. Bæjarráð vill ekki skapa fordæmi með slíku en er að sjálfsögðu alltaf til umræðu um samstarfssamninginn við ungmennafélagið okkar svo rekstur þess verði sjálfbær.“
Sindri er samfélagið okkar og við erum öll Sindri
Það er alveg ljóst að mikill metnaður hefur verið í knattspyrnudeild Sindra síðustu misseri. Það má glöggt sjá í ársreikningi deildarinnar og að mínu mati er það mikið fagnaðarefni. Á næstu dögum munu mál Sindra koma aftur inn á borð bæjarráðs og líkt og ég sagði ofar þarf að taka ákvörðun um framhaldið og hvernig við getum saman gert starf knattspyrnudeildar sjálfbært. Að lokum vil ég ítreka að allt mitt starfsfólk, bæjarráð og bæjarstjórn skilur og metur mikilvægi Sindra í samfélaginu. En ákvörðun um aukningu styrkja upp á tugi milljóna og uppbyggingu íþróttamannvirkja upp á hundruð milljóna þess eðlis að vanda þarf til verka og horfa á hlutina í samhengi. Í samhengi við aðra uppbyggingu innviða, þjónustu við atvinnulíf og íbúa og stöðu og afkomu sveitarsjóðs. Ég vonast þó til þess að fljótlega náist breið sátt um þessi mál hjá okkur og áætlun sem allir geta sæst á.
Áfram Sindri!
Með því að ýta á hlekkinn hér fyrir neðan er hægt að lesa pistil Óla í heild sinni þar sem hann fer yfir óánægju sína.
Hægt er að skoða ársreikning Sindra frá því í fyrra með því að smella hérna en þar kemur meðal annars fram að knattspyrnudeild félagsins hafi tapað 14,9 milljónum á síðasta ári.
Athugasemdir