Óli Stefán Flóventsson þjálfari Sindra á Höfn í Hornafirði er farinn í leyfi frá störfum félagsins. Hann gagnrýnir bæinn fyrir að styðja ekki við bakið á félaginu.
Hann birti pistil á Facebook í dag þar sem hann fer yfir stöðuna.
„Aðalkostnaður knattspyrnudeildar Sindra er ferðakostnaður og laun þjálfara. Leikmenn fá ekki laun fyrir að spila fótbolta hjá okkur. Í ferðakostnaði er átt við kostnað við ferjun leikmanna og þjálfara í leiki að heiman. (Í einu liði er 18 manna hópur og 1-2 starfsmenn) Við keyrum í alla leiki, aldrei flogið. Miðað við taxta sem ríkið/sveitafélög setja á ekinn km í þeirra ferðum þá eru það 121 kr á km. Það þýðir í okkar tilfelli að ein ferð til Reykjavíkur, fram og til baka á einum bíl kostar um 120.000 kr," skrifar Óli Stefán.
Aðstæður á Höfn eru ekki góðar og hefur liðið þurft að ferðast 250 km á Reyðarfjörð til að spila heimaleiki en hann greinir frá því að ferðakostnaður í 'heimaleiki' hafi verið um milljón krónur á þessu ári.
„Aukaferðakostnaður við þessa „heimaleiki“ að heiman er um milljón, og tími í bíl er rúmlega heil vinnuvika en það er tími sem við gætum átt með okkar fjölskyldum ef hér væri t.d gervigrasvöllur í keppnisstærð." Skrifar Óli Stefán.
Sindri spilaði heimaleik í Mjólkurbikarnum gegn Hetti/Huginn á Reyðarfirði en Óli greinir frá því að heimaliðið þurfi að sjá um kostnað fyrir aðkomuliðið. Félagið fékk ekki styrk frá sveitarfélaginu vegna þess.
Hann er þakklátur Fjarðabyggð sem gaf félaginu afslátt af leigu á húsinu og Hetti/Huginn sem afþakkaði þeirra hlut í ferðakostnaði.
Sindri er með fjögur stig eftir þrjár umferðir í 2. deild.