Það er kannski furðulegt að segja það en þrátt fyrir 3-0 tap gegn Mexíkó í vináttulandsleik á föstudaginn, tölur sem eru ekki fallegar á blaði, hefur það engin neikvæð áhrif á tilfinningu manns fyrir því hvernig Íslandi muni vegna á stærsta sviðinu í Rússlandi í sumar.
Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi var spilamennska liðsins stóran hluta bara mjög fín, sérstaklega í fyrri hálfleik. Liðið skapaði sér flott færi, betri en mótherjarnir. Munurinn var sá að Mexíkó refsaði okkar liði fyrir mistök, þeir nýttu færin og markvörður þeirra var í stuði.
Vináttuleikir eru vettvangur til að prófa nýja hluti, gefa mönnum tækifæri, og þeir hafa svo sannarlega verið nýttir þannig síðan Heimir Hallgrímsson kom til starfa hjá KSÍ, fyrst sem aðstoðarmaður Lalla Lagarback. Úrslitin vináttuleikja hafa hreinlega verið döpur en á meðan liðið blómstrar í keppnisleikjum kvartar maður ekki!
Af þeim þremur leikmönnum sem spiluðu alla tíu leikina í undankeppni HM kom aðeins einn við sögu gegn Mexíkó, Birkir Már Sævarsson sem spilaði fyrri hálfleikinn. Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson sem alltaf er meðal fyrstu nafna á blað í keppnisleikjum var ónotaður og okkar besti fótboltamaður, Gylfi Þór Sigurðsson, er meiddur.
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilaði aðeins fyrri hálfleikinn, rétt eins og Birkir Már. Aron var að spila sínar fyrstu mínútur síðan hann meiddist á ökkla í nóvember. Liðið lék vel í þeim hálfleik og hefði í raun átt að vera yfir í hléi.
Okkar helstu sóknarmenn í undankeppninni; Alfreð Finnbogason og Jón Daði Böðvarsson, tóku ekki þátt í leiknum og heldur ekki aðalmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson sem hefur verið ótrúlega traustur í landsliðsbúningnum og gerir sárasjaldan mistök. Hörður Björgvin Magnússon, sem byrjar líklega gegn Argentínu 16. júní, var fjarri góðu gamni.
Breiddin í íslenska landsliðshópnum er klárlega að aukast hægt og rólega en þetta eru ansi stór skörð, leikmenn sem þekkja skipulagið út og inn og koma með jafnvægi inn í liðið. Þegar öllu er á botninn hvolft telur maður sig nokkurn veginn vita hvernig byrjunarliðið mun verða gegn Argentínu.
Engin ástæða til svartsýni eftr leikinn gegn Mexíkó og vonandi finnast ekki heldur ástæður eftir leikinn gegn Perú á þriðjudagskvöld. Það eru 83 dagar í fyrsta leik Íslands á HM.
Athugasemdir