Rio Ferdinand fyrrum leikmaður Manchester United segist hafa lagt Cristiano Ronaldo nánast í einelti þegar þeir spiluðu saman hjá United á sínum tíma.
Þeir léku saman hjá United frá 2003-2009, þangað til Ronaldo fór til Real Madrid. Ferdinand var í viðtali á ástralskri útvarpsstöð þar sem hann sagði sögu af því þegar Ferdinand og Quinton Fortune fóru illa með Ronaldo.
„Ég og Quinton Fortune gerðum grín af honum. Hann var miklu yngri en við, þetta jaðraði við einelti. Við vorum bara að reyna byggja hann upp, byggja upp seiglu," sagði Ferdinand.
Þeir spiluðu borðtennis mikið saman.
„Við spiluðum annan hvern dag fyrir æfingu sem hluti af upphitun. Ég dúndraði honum út um allt. Hann vann mig, þetta var ég á móti honum, eins og Federer og Nadal. Ef þessu hefði verið sjónvarpað hefði það bætt met. Hann grét næstum því, hann var með svo mikið keppnisskap."