Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 26. nóvember 2019 18:30
Arnar Helgi Magnússon
Aðgerð Olivers gekk vel: Verkirnir komu alltaf aftur
Oliver Stefánsson.
Oliver Stefánsson.
Mynd: Getty Images
Oliver og Ísak Bergmann Jóhannesson, sem er einnig hjá Norrköping.
Oliver og Ísak Bergmann Jóhannesson, sem er einnig hjá Norrköping.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Varnarmaðurinn ungi Oliver Stefánsson hefur verið mjög óheppinn með meiðsli frá því hann gekk í raðir Norrköping í Svíþjóð frá ÍA síðastliðinn vetur.

Hann hefur lítið spilað undanfarna mánuði vegna mjaðmarmeiðsla, en þau byrjuðu að hrjá hann eftir úrslitakeppni EM með U17 ára landsliði Íslands í vor.

Oliver gekkst undir aðgerð í dag og verður frá í hálft ár.

„Eftir fimm mánuði af meiðslum og endurhæfingu var loksins komist að því hvað væri að mjöðminni minni. Það var ákveðið að ég þyrfti aðgerð. Ég fór í aðgerðina í morgun og læknarnir segja að hún hafi gengið mjög vel. Því miður verð ég frá í sex mánuði, en ég mun koma sterkari til baka en nokkru sinni fyrr," skrifar Oliver á Instagram.

Oliver segir að tíminn hjá Norrköping hafi verið mikið upp og niður.

„Ég byrjaði mjög vel og æfði bara með aðaliðinu þangað til ég fór á EM með U17 í maí. Eftir það gerist eitthvað í mjöðminni og ég hef ekki verið samur eftir það - því miður. Ég hef verið mikið í ræktinni, eitthvað með aðalliðinu og eitthvað með U19 að reyna koma mér í gang, en alltaf komu verkirnir aftur," segir Oliver við Fótbolta.net.

Hann segir: „Í byrjun voru þetta bara litlir stingir i mjöðminni innan og utan vallar, en svo, seinna meir, byrjuðu að koma stórir stingir sem urðu til þess að ég datt niður og missti allan kraft í fótunum."

„Það sem gerist er að það var einhver ójafna í mjaðmaskálinni, en það sást ekki á neinum myndatökum þangað til það var farið inn í hana. Þess vegna tók þetta langan tíma, því það sást ekki hvað var nákvæmlega að."

„Svo var löppin svo misjöfn að ég gat stundum æft tvær æfingar í röð, en svo sveik hún mig. Við héldum alltaf að þetta væri að lagast og reyndum allar meðferðir áður en ákvörðun var tekin um aðgerð því það fylgir því alltaf ákveðin áhætta að fara í aðgerð," sagði Oliver sem er 17 ára gamall.

Framundan er löng og ströng endurhæfing en Oliver er bjartsýnn.



Athugasemdir
banner
banner