Birnir Snær Ingason hefur að undanförnu verið orðaður við heimkomu til Íslands en hann hefur síðasta árið verið hjá Halmstad í Svíþjóð. Birnir sagði sjálfur í viðtali við Fótbolta.net í vikunni að hann væri ekki á leið heim.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, í dag og var hann spurður út í Birni.
Voruð þið eitthvað farnir að skoða möguleikann á að fá hann heim?
„Við erum í góðu sambandi við Bidda og hann veit alveg hvar við stöndum. Ef hann ætlar að koma heim þá tökum við á móti honum með opnum örmum, viljum endilega fá hann, en hann er ennþá á samningi úti og hann vill láta á það reyna. Við höfum ekkert verið að þrýsta á hann að koma heim, höfum verið að heyra í honum hvernig gengur úti og svoleiðis. Hann er bara með fulla einbeitingu á verkefninu þarna úti eins og hann sagði sjálfur í viðtalinu. Hann ætlar ekkert að stinga hausnum ofan í sandinn, ætlar að reyna berjast fyrir sínu sæti, sem er bara flott og vonandi gengur það. Við vonum að hann haldi sér úti eins lengi og hægt er."
„Ef svo kemur til að hann ætlar að fara heim, þá erum við klárlega áhugasamir."
„Síðan er gott sumar í Svíþjóð, tískan að fara detta inn í Halmstad. Ég held að hann vilji líka taka dálítinn þátt í því," segir Sölvi á léttu nótunum. Birnir er jú þekktur fyrir sína fatahönnun og fatastíl.
Athugasemdir