Dortmund vill Rashford - City að bjóða í Cambiaso - West Ham og Tottenham hafa áhuga á Ansu Fati
   fim 28. nóvember 2024 15:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sveindís þarf að taka stóra ákvörðun - „Ætla að halda því fyrir mig"
Icelandair
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís er á mála hjá Wolfsburg í Þýskalandi.
Sveindís er á mála hjá Wolfsburg í Þýskalandi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sveindís fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Sveindís fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður Sveindís áfram hjá Wolfsburg?
Verður Sveindís áfram hjá Wolfsburg?
Mynd: Mirko Kappes
Er lykilona í íslenska landsliðinu.
Er lykilona í íslenska landsliðinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Stemningin er mjög góð. Eins og alltaf. Það er gaman að sjá stelpurnar og (Áslaugu) Mundu sérstaklega. Hún er komin aftur í hópinn, þar sem hún á að vera. Það er gott veður hérna á Spáni, frábærar aðstæður og gaman að hitta allar aftur," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Framundan eru vináttulandsleikir gegn Kanada og Danmörku á Pinatar á Spáni. Síðustu leikir ársins hjá kvennalandsliðinu en þetta hefur verið gott ár hjá stelpunum okkar.

„Það er búið að vera svo kalt í Þýskalandi og ég er mjög ánægð með þetta," segir Sveindís ánægð á Spáni.

Um leikina sjálfa segir hún: „Við viljum auðvitað vinna leikina en það þarf líka að vera góð frammistaða og stígandi í liðinu; að við séum að bæta okkur með hverjum leik. Sigur er alltaf fyrst á blaði en það er líka mikilvægt að við séum að bæta okkur. Við viljum auðvitað spila góðan fótbolta, halda í boltann og vera rólegar því við getum það alveg. Við erum með eitt besta landslið í heimi."

Mér finnst ég eiga það skilið
Sveindís er á mála hjá Wolfsburg í Þýskalandi en hún hefur ekki verið í sérlega stóru hlutverki þar það sem af er tímabili. Hún hefur aðeins byrjað einn leik í þýsku úrvalsdeildinni.

„Ég er bara heil og tilbúin í þær mínútur sem ég fæ. Ég hef ekki fengið að spila rosalega mikið í Wolfsburg en ég er alltaf tilbúin fyrir landsliðið. Vonandi spila ég auðvitað bara sem mest. Ég þarf að fá að spila aðeins meira í Wolfsburg og sýna það að ég eigi heima í liðinu þar," segir Sveindís.

„Auðvitað vil ég spila sem mest. Allir leikmenn vilja það. Mér finnst ég eiga það skilið; ég hef verið að standa mig vel og hef verið að æfa vel. Stundum eru bara aðrir leikmenn sem fá að spila meira og mér finnst ég ekki geta gert neitt í því. Mér finnst ég vera að gera mitt vel. Það er þjálfarinn sem ræður. Ég kem oftast inn á í öllum leikjum og geri mitt besta."

Fær ekki mikið af svörum
Hefurðu rætt við þjálfarann við þína stöðu og hefurðu fengið einhverjar útskýringar frá honum?

„Maður fær ekkert mikið af svörum ef maður gerir það. Hann er stundum bara búinn að ákveða liðið og voða lítið sem hægt er að gera. Ég er að verða samningslaus og hann er búinn að tala við mig um áframhaldandi samning og eitthvað svoleiðis. Ég er opin fyrir öllu en ég þarf að fá að spila. Ef hann getur svarað mér með eitthvað sem ég get gert betur til að komast inn í liðið, þá væri ég til í að heyra það en það er voðalega erfitt að fá eitthvað upp úr honum með það," segir framherjinn öflugi.

Hún skoraði tvö mörk í bikarleik áður en hún fór til móts við landsliðið og sendi þar ákveðin skilaboð til þjálfarans.

„Hann var auðvitað ánægður með mig en þetta var voðalega lélegur leikur hjá liðinu. Ég held að þetta lið sé tveimur deildum fyrir neðan okkur og við áttum að vinna það auðveldlega. Veit ekki alveg hvort það var vanmat. Auðvitað er ég ánægð að hafa skorað tvö en ég vil líka spila stóru leikina og gera vel í þeim. Ég fór svo beint í landsliðsverkefni eftir leikinn og það var ekkert mikið talað þó hann hafi sagt að þetta hafi verið vel gert," segir Sveindís.

Stór ákvörðun
Sveindís þarf að taka stóra ákvörðun á næstu mánuðum. Hún er að verða samningslaus og þarf að ákveða hvort hún verði áfram í Wolfsburg eða reyni fyrir sér á öðrum stað.

„Það er svolítið mikið í gangi núna. Ég þarf að velja rétt og velja vel. Ég er opin fyrir öllu og er tilbúin að halda áfram í Wolfsburg ef það er það sem ég vil gera. Ég veit ekki alveg hvað ég vil gera. Ég er í frábærum höndum í Wolfsburg en er ekki búin að ákveða neitt. Þetta er smá skemmtileg staða en getur líka verið stressandi. Það styttist í að ég þurfi að velja," segir hún.

Sveindís segist vita af áhuga frá einhverjum félögum en hún vil ekki gefa neitt upp með hvaða félög það eru.

„Já, það eru einhver félög sem hafa áhuga en ég ætla að halda því fyrir mig sjálfa. Ég þarf að velja vel," sagði Sveindís.

Ekki sérlega skemmtilegt
Sveindís er stórstjarna í íslenskum fótbolta en á undanförnum vikum hafa íslenskir fjölmiðlar skrifað um ástarlíf hennar. Vísir fjallaði um það á dögunum að hún væri að hitta Rob Holding, varnarmann Crystal Palace á Englandi. Sveindís segir það ekki skemmtilegt að lesa svona slúðurfréttir um sjálfa sig.

„Mér finnst það ekkert sérlega skemmtilegt og ekkert gaman að tala um þetta heldur. Ég vil helst ekki segja neitt," segir Sveindís um það.

Gaf út sína aðra bók fyrir jólin
Sveindís er ekki bara að gera öfluga hluti innan vallar, hún er líka að gera mjög skemmtilega hluti utan vallarins. Nýverið var það opinberað að hún sé að gefa út sína aðra bók.

Nýja bókin er komin út og ber heitið Sveindís Jane: Saga af stelpu í landsliði. Bókin hvetur lesendur til að eltast við drauma sína og stökkva á tækifæri þrátt fyrir að ýmsar áskoranir kunni að verða á leiðinni.

„Þetta er bara svolítið öðruvísi verkefni. Ég er ekki í skóla og þurfti að finna eitthvað annað að gera. Þetta er skemmtilegt og hvetjandi fyrir krakka að halda áfram að lesa og vera ekki bara í tölvunni eða Ipadnum. Vonandi fæ ég að hitta einhverja krakka í jólafríinu og skrifa í bækur," segir Sveindís og heldur áfram:

„Þetta er eitthvað sem ég get gert í aukatímanum sem ég hef. Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt. Þetta hefur gengið vel og engin ástæða til að hætta núna. Ef það gengur vel með þessa bók þá er hægt að búa til fleiri en maður sér til hvernig gengur og hvort maður hafi tíma fyrir fleiri."

„Það er alltaf hægt að vera duglegri að lesa," sagði Sveindís að lokum en það er alveg hægt að taka undir það með þessari stjörnu íslenska landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner