banner
   fös 29. júlí 2022 13:15
Elvar Geir Magnússon
Malmö tilkynnir að Milos sé farinn (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Svíþjóðarmeistarar Malmö hafa tilkynnt formlega að Milos Milojevic sé hættur sem þjálfari liðsins. Leit að eftirmanni hans sé þegar komin af stað.

Milos, sem er fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks hér á Íslandi, tók við Malmö fyrir þetta tímabil. Hann stýrði liðinu til síns fyrsta bikarmeistaratitils síðan 1989.

„Leiðir okkar skilja sem vinir og með bikarsigrinum verður nafn hans ritað í sögu félagsins að eilífu. Við þökkum Milosi fyrir hans tíma hjá Malmö og óskum honum alls hins besta," segir stjórnarformaðurinn Anders Pålsson.

„Við gerðum okkar besta en stundum ganga hlutirnir ekki að óskum. Ég óska félaginu alls hins besta í framtíðinni og vona að það nái öllum markmiðum sínum," segir Milos.

Malmö féll úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar gegn Zalgiris Vilnius frá Litháen á dögunum. Voru þetta einhver óvæntustu úrslit keppninnar í ár en Malmö fór í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Í umferðinni þar á undan skreið Malmö rétt fram hjá Víkingum.

Malmö er í fimmta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá toppliði Djurgården. Krafan er sú að Malmö vinni deildina á hverju ári.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner